„Svona eiga þingmenn ekki að tala,“ skrifar Ragna Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður Ungra jafnaðarmanna á Twitter í dag og vísar þar til ummæla sem Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður flokksins, lét falla í viðtalsþættinum Sprengisandi um helgina. Sagði hann núverandi ríkisstjórn vera ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Þessu tóku margir sem kvenfyrirlitningu þar sem kona, Katrín Jakobsdóttir, væri forsætisráðherra Íslands.
Þegar Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi benti á að ríkisstjórnir væru vanalega kenndar við forsætisráðherra, í þessu tilviki Katrínu Jakobsdóttur, þá sagði Ágúst Ólafur: „Við Willum [Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem var líka gestur þáttarins] þekkjum alveg hver stjórnar. Og það er ekki Katrín.“
Ágúst Ólafur var í kjölfarið ásakaður um að sýna af sér kvenfyrirlitningu með orðum sínum. Á meðal þeirra sem það gerðu var Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem skrifaði í stöðuuppfærslu á Twitter í morgun, þar sem hún hlekkjaði í þráð Líf Magneudóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna, um málið: „Botnlaus kvenfyrirlitning. Og ekki í fyrsta sinn.“
Líf hafði sjálf skrifað: „Ágúst Ólafur, finndu þér eitthvað annað að gera. Þú átt ekkert erindi á ALþingi jafn illa haldinn af kvenfyrirlitningu og raun ber vitni. Þetta er ekki í fyrsta sinn.“
Á meðal þeirra sem tjáðu sig á þræði Lífar var Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem skrifaði: „Úff þetta er bara ekki í lagi...“
Svona eiga þingmenn ekki að tala. Gott og gilt að biðjast afsökunar en ummælin minna óneitanlega á þá kynferðislegu áreitni sem þingmaðurinn sýndi af sér og léleg viðbrögð hans í kjölfar opinberunar hennar. https://t.co/szSulSw7Bn
— Ragna Sigurðardóttir (@ragnasig) October 5, 2020
Ágúst Ólafur baðst í dag afsökunar á ummælum sínum með færslu á Facebook að honum þyki leitt að hafa sett orð sín fram með þeim hætti að hann gerði lítið úr forystuhlutverki Katrínar Jakobsdóttur.
Ragna skrifar í færslu sinni á Twitter að gott og gilt sé að biðjast afsökunar en að ummælin minni „óneitanlega á þá kynferðislegu áreitni sem þingmaðurinn sýndi af sér og léleg viðbrögð hans í kjölfar opinberunar hennar“. Hún bætir svo við: „Allt þetta hlýtur að hafa áhrif á stöðu hans fyrir næstu alþingiskosningar.“