Útflutningur sjávarafurða nam tæpum 30 milljörðum í september, sem er 20 prósenta aukning miðað við sama mánuð í fyrra. Ekki hefur virði útfluttra sjávarafurða verið jafnmikið á síðustu þremur mánuðum síðan á öðrum ársfjórðungi 2015.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum hagstofu um vöruviðskipti. Samkvæmt þeim jókst heildarútflutningur vara um 11,2 milljarða í september miðað við sama mánuð í fyrra. Meirihlutinn af þeirri aukningu, eða 6,5 milljarðar var vegna meiri útflutnings sjávarafurða. Útflutningur landbúnaðarvara jókst líka um 2,6 milljarða og er það meira en tvöfalt meira en útflutningurinn í september í fyrra.
Sveiflast með genginu
Ef litið er aftur til síðustu átta ára hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða vaxið tiltölulega mikið á síðustu þremur árum samhliða veikingu krónunnar. Þessa þróun má sjá á mynd hér að neðan þar sem virði fiskútflutnings í krónum hefur aukist á sama tíma og gengi annarra mynta gagnvart krónunni hefur hækkað.
Í september síðastliðnum var gengi krónunnar svipað og það var fyrir rúmum fimm árum síðan, eða um mitt ár 2015. Sömuleiðis er virði fiskútflutnings á svipuðum miðum og það var þá, en útflutningur sjávarafurða nam rúmlega 70 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi 2015.
Ekki hafa enn fengist tölur frá septembermánuði um landaðan afla, en alls var 15 prósentum meira landað í ágúst síðastliðnum en á sama tíma í fyrra. Hins vegar hefur aflamagn íslenskra skipa verið tiltölulega lítið það sem af er ári þótt verðmæti þess hafa verið mikil, en fyrsti fjórðungur þessa árs var sá aflaminnsti í að minnsta kosti átta ár.