23 sjúklingar með COVID-19 liggja nú á Landspítalanum. Þrír eru á gjörgæsludeild. Innlögðum hefur því fjölgað um þrjá frá því í gær.
Yfir hundrað smit af kórónuveirunni greindust hér á landi í gær. Af þeim voru 94 innanlandssmit og átta greind við landamærin. Aðeins 40 af þeim sem greindust innanlands, innan við helmingur, var í sóttkví við greiningu, samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn fékk frá almannavörnum í morgun.
Í fyrstu bylgju faraldursins höfðu 20 verið lagðir inn á sjúkrahús 27 dögum eftir að fyrsta smitið greindist. Þá voru sex á gjörgæslu. Nú, 27 dögum eftir að þriðja bylgjan hófst að mati vísindafólks við Háskóla Íslands, eru 23 á sjúkrahúsi en þrír á gjörgæslu.
Vísindafólk við Háskóla Íslands vinnur nú að því að uppfæra spálíkan sitt um mögulega þróun faraldursins. Til stendur að gera einnig sviðsmyndir um fjölda innlagna í þessari uppfærðu spá.
Glíma við fjölþætt einkenni
Sigríður Zöega, sérfræðingur í hjúkrun og dósent við Háskóla Íslands, birti í gær fyrstu niðurstöður úr könnun um einkenni og líðan sjúklinga í kjölfar Covid 19. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna einkenni og líðan einstaklinga sem fengu Covid-19 og nutu þjónustu Covid-19 göngudeildar Landspítala. Spurningalisti var sendur út í júlí og var svarhlutfall um 60%. Þátttakendur mátu líðan sína og einkenni bæði á meðan þeir voru í einangrun og undanfarnar 1-2 vikur þegar spurningalista var svarað.
Rannsóknin sýndi að þótt einkennum fækki og það dragi úr styrkleika þeir þá er fólk engu að síður að glíma við fjölþætt einkenni sem hafa áhrif á daglegt líf, einkum þreytu, mæði og verki. Meirihluti þátttakenda mat heilsu sína verri nú en fyrir Covid-19.
Auknar líkur á veldisvexti
Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ítreka tilmæli sín vegna aukins fjöldi smita einkum á höfuðborgarsvæðinu, vegna Covid-19 síðustu daga og aukið hafa líkur á veldisvexti í faraldrinum. Búast má við að tölur um fjölda smita verði háar næstu daga, segir í tilkynningu sem barst fjölmiðlum í morgun. Tilmælin eru:
- Hvetjum alla á höfuðborgarsvæðinu til að vera eins mikið heimavið og kostur er.
- Ekki vera á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu nema nauðsyn sé til.
- Verjum viðkvæma hópa og takmörkum heimsóknir til einstaklinga í áhættuhópum eins og hægt er.
- Takmörkun fjölda í búðum – einn fari að versla frá heimili ef kostur er
- Hvatt er til þess að þeir sem standi fyrir viðburðum á höfuðborgarsvæðinu fresti þeim
- Klúbbar, kórar, hlaupahópar, hjólahópar og aðrir hópar sem koma saman geri hlé á starfsemi sinni.
- Allir staðir á höfuðborgarsvæðinu þar sem almenningur á erindi herði allar sínar sóttvarnaraðgerðir, takmarki eins og hægt er fjölda, tryggi að allir geti sótthreinsað hendur við innganga, sótthreinsi snertifleti og gæti vel að hægt sé að virða fjarlægðarmörk.
- Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu geri hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum.
- Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu fresti keppnisferðum út á land.
- Allir sem finni fyrir hinum minnstu einkennum haldi sig heima, fari í sýnatöku og líti á að þeir séu í einangrun þar til neikvæð niðurstaða úr sýnatöku liggi fyrir.
„Allir á höfuðborgarsvæðinu og víðar þurfa að koma með okkur í þetta átak og gæta sérstaklega vel að sér næstu vikur.“