Hlutdeild erlendra eigna af heildareignum lífeyrissjóðanna nam 34 prósentum í ágúst síðastliðnum og hefur það aldrei verið hærra. Hlutdeildin hefur vaxið örugglega frá afnámi gjaldeyrishaftanna og er nú orðið töluvert hærri en hún var fyrir bankahrunið árið 2008. Samkvæmt úttekt frá árinu 2014 væri æskilegt hlutfall erlendra eigna í lífeyrissjóðum 40 til 50 prósent.
Þróun hlutdeildar erlendra eigna íslenskra lífeyrissjóða samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabankanum má sjá á mynd hér að neðan. Þar sést hvernig hún hefur hækkað úr rúmum fimmtungi frá losun gjaldeyrishaftanna fyrir rúmum þremur árum síðan upp í rúman þriðjung í ágúst á þessu ári. Fyrr hafði hlutdeildin náð hámarki þegar gjaldeyrishöftin voru sett á í nóvember árið 2008, en þá voru erlendar eignir lífeyrissjóðanna 31 prósent af heildareignum þeirra.
Samkvæmt ritinu Áhættudreifing eða einangrun eftir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra og Hersi Sigurgeirsson dósent við viðskiptafræðideild HÍ kveða klassískar hagfræðikenningar á um að ákjósanlegast væri fyrir íslenska lífeyrissjóði að eiga um 30-40 prósent eigna sinna erlendis. Hins vegar er bætt við að þetta hlutfall gæti verið enn hærra ef tekið er tillit til séríslenskra þátta.
Ásgeir og Hersir færa rök fyrir því að lífeyrissparnaður í erlendri mynt sé forsenda þess að halda stöðugleika á smærri myntsvæðum þar sem hlutdeild innflutnings sé tiltölulega mikil af neyslu og sjóðasöfnun sé ráðandi lífeyrisform.
Hægt væri að leiða út að lífeyrissparnaður eigi að hafa sömu myntsamsetningu og almenn einkaneysla viðkomandi lands, en samkvæmt þeirri reglu ætti hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna að vera um 40 til 50 prósent.