Fyrirtæki sem eru skylduð til þess að loka dyrum sínum núna í þriðju bylgju faraldursins vegna sóttvarnareglna munu geta sótt um 600 þúsund krónur í lokunarstyrk með hverjum starfsmanni á mánaðargrundvelli. Alls geta styrkirnir numið 120 milljónum króna að hámarki á hvert fyrirtæki.
Þetta er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á mbl.is í dag, en ríkisstjórnin ræddi um útfærslu nýrra lokunarstyrkja á fundi sínum í morgun.
Hámarksgreiðslur til hvers og eins fyrirtækis yrðu 120 milljónir króna sem áður segir og þýðir það að stór fyrirtæki á borð við líkamsræktarkeðjur sem hafa þurft að loka dyrum sínum vegna sóttvarnarráðstafana geta fengið mikið tjón bætt.
Samkvæmt því sem haft er eftir Katrínu á mbl.is var horft til reglna sem eru í gildi í Evrópu þegar ákveðið var að setja svona hátt þak á greiðslurnar.
Í fréttinni segir að kostnaðaráætlun geri ráð fyrir að úrræðið muni kosta á bilinu 300-400 milljónir króna að því gefnu að lokun þeirrar atvinnustarfsemi sem nú er lokuð vegna sóttvarnaráðstafana vari aðeins í tvær vikur.
3,6 milljóna króna þak í fyrri lokunarstyrkjum
Fyrri útgáfa lokunarstyrkja kvað á um 3,6 milljóna króna hámark til hvers fyrirtækis, en þá var úrræðið aðallega hugsað til þess að koma til móts við minni fyrirtæki og einyrkja á borð við hárgreiðslufólk og nuddara sem urðu fyrir því að þurfa að loka starfsemi sinni í fyrstu bylgju faraldursins á vormánuðum. Úrræðið nú nær til stærri fyrirtækja.
Þann 8. september sl. hafði verið afgreiddur um 1 milljarður króna í lokunarstyrki til alls 998 fyrirtækja, samkvæmt upplýsingum sem finna má á vef fjármálaráðuneytisins um nýtingu efnahagsúrræða vegna COVID-19 faraldursins.