Þrátt fyrir tilmæli Golfsambands Íslands (GSÍ) um að kylfingar á höfuðborgarsvæðinu leituðu ekki til golfvalla utan þess til þess að fara í golf spilaði formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, golf síðdegis í dag á golfvellinum í Hveragerði. Frá þessu er greint á mbl.is í kvöld.
Fram kemur í fréttinni að á Facebook-síðu Golfklúbbs Hveragerðis hafi í gær verið tilkynnt lokun vallarins fyrir öðrum en félagsmönnum frá hádegi 9. október. Þorgerður Katrín sé ekki félagsmaður.
Þorgerður Katrín segir í samtali við mbl.is þetta vera „náttúrlega algerlega óafsakanlegt í ljósi tilmæla. Ég er alltaf í sveitinni en það afsakar ekki það að hafa farið í golf.“
Þá segist hún hafa farið í golf en ekki vera meðlimur í klúbbnum – þannig að þá sé það ekki heimilt „eins og maður segir, samkvæmt tilmælum, ef maður á að fara nákvæmlega eftir þeim“.
Segist hafa dvaldið í Ölfusi
Á mbl.is kemur enn fremur fram að Þorgerður Katrín hafi dvalið í húsi sínu í Ölfusi frá því í gær. Hún segir að tilmæli sem golfsambandið sendi frá sér hafi kveðið á um að fólk leitaði ekki sérstaklega frá höfuðborgarsvæðinu og á golfvelli utan þess, en hafi ekki tiltekið að fólk sem væri þegar utan höfuðborgarsvæðisins ætti ekki að fara í golf.
„Það var ekki verið að banna fólki að fara í golf ef þú ert þegar úti á landi. Síðan má alveg segja hvort þetta sé rétt eða rangt. Ég get ekkert verið að afsaka það hér. Ég bara er alltaf hér en fólk getur auðvitað litið á það öðruvísi. Það hefði verið heppilegra að fara ekki en tilmælin eru þau að þú farir ekki sérstaklega út á land til að spila golf,“ segir Þorgerður Katrín við mbl.is.
Á vefsíðu Golfsambands Íslands beinir sambandið þeim tilmælum til kylfinga á höfuðborgarsvæðinu að virða takmarkanir og leita þannig ekki til golfvalla utan höfuðborgarsvæðisins, enda hafi yfirvöld beint því til höfuðborgarbúa að vera ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu meira en nauðsyn krefur.
Biðst afsökunar
Þorgerður Katrín brást við á Facebook um kvöldið og sagði að henni hefði orðið á og að hún bæðist innilegrar afsökunar.
„Ég hef verið mikið í sveitinni minni í Ölfusi undanfarið, þar sem við fjölskyldan verjum alla jafna miklum tíma enda okkar annað heimili. Við hjónin tókum þá ákvörðun í dag að fara í golf seinnipartinn í Hveragerði eins og við gerum iðulega. Það hefði ég ekki átt að gera.
Þetta var yfirsjón af minni hálfu, og ég biðst afsökunar á að hafa ekki gert betur. Ég hef eftir fremsta megni fylgt tilmælum og veit að það eru allir að vanda sig á þessum skrýtnu tímum. Það stóð aldrei til hjá mér að fara framhjá neinum reglum. En þetta voru mistök sem ég mun læra af,“ skrifar hún.
Kæru vinir, Mér varð á í dag og á því biðst ég innilegrar afsökunar. Ég hef verið mikið í sveitinni minni í Ölfusi...
Posted by Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir on Saturday, October 10, 2020