Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fékk ekki tölur um komur hælisleitenda til landsins hjá Útlendingastofnun, að því er fram kemur í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Kjarnans. Útlendingastofnun birtir á vefsíðu sinni tölur yfir umsóknir um vernd í kringum 15. hvers mánaðar, fyrir mánuðinn á undan.
Þingmaðurinn hefur undanfarnar vikur birt tölur á Facebook-síðu sinni yfir einstaklinga sem lent hafa á Keflavíkurflugvelli og sótt um alþjóðlega vernd. Hann vill ekki greina frá því í samtali við Kjarnann hvaðan hann fær tölurnar.
Í svari Útlendingastofnunar til Kjarnans segir að umsóknir um vernd séu lagðar fram hjá lögreglu, flestar í flugstöðinni í Keflavík. „Um þessar mundir fara umsækjendur þaðan í sóttvarnarhús og dvelja þar þangað til niðurstöður úr seinni skimun liggja fyrir en fyrst að því loknu koma þeir í búsetuúrræði Útlendingastofnunar.“
Upplýsingarnar komu ekki frá sóttvarnarhúsi eða lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu
Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúsa, segir þingmanninn ekki hafa fengið þessar upplýsingar hjá sér. Upplýsingar um fjölda hælisleitenda sem í húsin koma dag frá degi eru ekki gefnar utanaðkomandi, hvorki fjölmiðlum, stjórnmálamönnum né öðrum.
Daglegar upplýsingar sem þessar séu aðeins gefnar rakningarteyminu og COVID-göngudeildinni. Þetta kemur fram í svari Gylfa við fyrirspurn Kjarnans.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, segist í svari við fyrirspurn Kjarnans ekki vita til þess að embættið hafi fengið fyrirspurnir um fjölda hælisleitenda sem komið hafa til landsins né kannist embættið við að hafa veitt þær.
Segist hafa fengið símtal og skilaboð með upplýsingunum
Ásmundur vildi ekki gefa það upp hvaðan hann fær þessar tölur, eins og áður segir, en Útlendingastofnun hefur staðfest þær fyrstu sem hann birti í lok september í svari við fyrirspurn Kjarnans. „Ástæðan fyrir því að ég birti þessar tölur er sú að hringt var í mig og mér sagt hvað væri í gangi upp á flugvelli,“ sagði hann í samtali við Kjarnann.
Fyrst greindi Ásmundur frá því að 17 manns hefðu komið þann 25. september til landsins. Ásmundur sagði í samtali við Kjarnann að síðar hefði komið í ljós að fleiri hefðu komið um svipað leyti. „Ég var svo sem ekki að elta ólar við það því það kom nokkrum dögum seinna.“
Viku síðar komu 20 í viðbót og greindi Ásmundur einnig frá því á Facebook. Við færsluna skrifaði hann: „Fjölmiðlar hér á landi flytja ekki fréttar af hingað komu hælisleitenda. Þeim til upplýsinga komu 20 hælisleitendur um síðustu helgi til landsins. Um 40 síðustu tvær helgar.“
Ásmundur sagði við Kjarnann að það sama hefði verið upp á teningnum þá; hann hefði fengið símtal og skilaboð þar sem honum var greint frá því hversu margir hefðu komið á þessum degi.
Sunnudaginn 11. október greindi hann frá því að farþegavél hefði komið frá Ítalíu deginum áður en með flugvélinni hefðu verið 35 farþegar. Þar af 14 hælisleitendur. „Mér er sagt að kostnaður (óstaðferst) vegna hvers hælisleitenda sé 6 milljónir og þessir 14 kosta ríkissjóð því 84 milljónir. Síðustu þrjár vikur hafa komið 54 hælisleitendur og kostnaðurinn vegna þeirra fyrir ríkissjóð því 324 milljónir,“ skrifaði hann á Facebook.