Lífeyrissjóðurinn Gildi verður einn af hornsteinafjárfestum laxeldisfyrirtækisins Arnarlax með 3,3 milljarða króna fjárfestingu. Arnarlax er stærsta laxeldisfyrirtækið á Íslandi, en umfang greinarinnar hefur stóraukist á síðustu fimm árum samkvæmt nýútgefnum tölum frá Hagstofunni.
Samkvæmt frétt Fréttablaðsins í morgun verður Gildi, ásamt sjóði á vegum Arion banka og norska einkafjárfestinum Edvin Austbø hornsteinafjárfestar fyrirtækisins í hlutafjárútboði þess, sem hófst í morgun og lýkur á morgun. Gildi mun fjárfesta fyrir um 3,3 milljarða króna, á meðan fjárfesting sjóðs Stefnis, sjóðsstýringafyrirtækis Arion banka, mun nema 1,5 milljörðum króna og Austbø mun leggja til hálfan milljarð króna.
Miðillinn Bæjarins Besta fjallaði einnig um málið, en samkvæmt honum stefnir félagið svo á skráningu á Merkur-markaðnum í kauphöllinni í Osló að útboðinu loknu. Fréttablaðið segir að Merkur-markaðurinn höfði til breiðari hóps fagfjárfesta en NOTC-listinn, sem Arnarlax er nú skráður á í norsku kauphöllinni.
Samkvæmt tölum sem birtust á vef Hagstofunnar í morgun voru um 27 þúsund tonn framleidd af laxi í fyrra, og er það tvöfalt meira en árið á undan. Laxeldi hefur aukist mjög hratt á undanförnum fimm árum, en árið 2015 voru einungis rúmlega þrjú þúsund tonn af laxi framleidd hér á landi.
Tíföldun á fimm árum
Samkvæmt Einari K. Guðfinnssyni, sem vinnur að fiskeldismálum fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, er búist við um 32 þúsund tonna framleiðslu í ár, sem yrði tífalt meira en framleitt magn fyrir fimm árum síðan.
Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar geta firðirnir þar sem fiskeldi er heimilað þó borið allt að þrefalt meira magn en það, eða um 106 þúsund tonn.
Arnarlax er í dag stærsta fiskeldisfyrirtæki á Íslandi og sér um laxeldi á Vestfjörðum. Hjá félaginu starfa yfir 100 manns á Bíldudal, Hafnarfirði, Þorlákshöfn og Bolungarvík.