Þingmenn Viðreisnar hafa lagt fram frumvarp um jöfnun misvægis atkvæða eftir kjördæmum í landinu. Verði frumvarpið að lögum mætti búast við fleiri þingmönnum í Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, en færri þingmönnum í hinum kjördæmunum.
Í greinargerð frumvarpsins er vitnað í Feneyjanefndina, sem gaf út reglur um góða starfshætti í kosningamálum árið 2002. Samkvæmt þeim reglum á misvægi atkvæða almennt ekki að fara yfir 10-15 prósent nema við sérstakar aðstæður. Þessi munur er mun meiri hér á landi, eða rétt undir 100 prósentum.
Samkvæmt flytjendum frumvarpsins hindra núverandi kosningalög frekari breytingar á atkvæðavægi, þar sem breytingar á fjölda kjördæmissæta mega aldrei vera meiri en til að fullnægja lágmarksskilyrði stjórnarskrárinnar samkvæmt þeim. Þessi lágmarksskilyrði heimila allt að 100 prósenta misvægi atkvæða.
Úr 99 prósentum í 16
Hins vegar er það tekið fram að ekki sé hægt að tryggja fyllilega jafnt vægi atkvæða með núverandi kjördæmaskiptingu landsins út af stærðfræðilegum ástæðum. Aftur á móti sé hægt að minnka mun milli kjördæma töluvert.
Þennan mun sést á mynd hér að neðan, sem miðar við atkvæðavægi eftir kjördæmum við síðustu alþingiskosningar árið 2017. Ef stuðlað yrði að jöfnu vægi atkvæða myndi þingmönnum Suðvesturkjördæmis fjölga um fimm, auk þess sem hvort Reykjavíkurkjördæmið um sig fengi einn þingmann til viðbótar.
Hins vegar myndi þingmönnum Suðurkjördæmis fækka um einn og þingmönnum Norðausturkjördæmis um tvo. Norðvesturkjördæmi myndi tapa flestum þingmönnum ef frumvarpið yrði að lögum, en samkvæmt atkvæðavægi við síðustu kosningar myndi þingmönnum þar fækka um þrjá. Með þessari skiptingu yrði misvægi atkvæða minnkað úr 99 prósentum í 16 prósent.
Óeining á meðal formanna
Ein af spurningunum sem kosið var um í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá árið 2012 sneri að jöfnun atkvæðavægis. Þar var spurt hvort ákvæði um jafnt vægi atkvæða ætti að vera í nýrri stjórnarskrá og svöruðu tveir þriðju kjósenda því játandi.
Samkvæmt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra var stefnt að því að taka upp umræðu um jöfnun atkvæða á næsta kjörtímabili sem hluta af heildarendurskoðun stjórnarskrár. Hún sagðist þó vera tilbúin til að flýta þeirri umræðu yfir á þetta kjörtímabil eftir að hafa fengið fyrirspurn frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formanni Viðreisnar fyrr í vor.
Hins vegar ríkir ekki eining um málið, ef marka má ummæli annarra formanna stjórnmálaflokka. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins taldi umræðuna um jöfnun atkvæðavægis ekki tímabæra í viðtali við Fréttablaðið, auk þess sem Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og Smári McCarthy þáverandi formaður Pírata töldu það ekki vera forgangsmál.
Samkvæmt flytjendum frumvarpsins er jafnt vægi atkvæða þó „sjálfsögð krafa í nútímalegu lýðræðissamfélagi“ og mikilvægt til að tryggja jafnan rétt borgara óháð efnahag, kyni, uppruna eða búsetu.