Íslendingar vilja að Alþingi forgangsraði fjármunum til heilbrigðismála í COVID-19 faraldrinum, að því er fram kemur í viðhorfskönnun sem Gallup framkvæmdi fyrir þingflokk Pírata í september og október.
Spurt var: „Hvernig vilt þú að Alþingi forgangsraði fjármunum til eftirfarandi málaflokka í fjárlögum?“ Svarendum bauðst því næst að raða málaflokkum í mikilvægisröð og var þannig reiknuð út svokölluð forgangseinkunn.
Þá kemur fram að áhersla landsmanna aukist milli ára á að þingheimur verji auknu fjármagni í almannatryggingar og velferðarmál, löggæslu og öryggismál. Yfirgnæfandi stuðningur er við að hið opinbera auki útgjöld fremur en að lækka skatta.
Í tilkynningu frá þingflokknum segir að hann láti framkvæma könnunina árlega til þess að draga fram hvernig Íslendingar vilji að Alþingi forgangsraði fjármunum í fjárlögum og um leið sjá hvernig áherslur landsmanna breytist á milli ára.
Könnunin sýnir að Íslendingar vilji aukin framlög til heilbrigðismála en alls töldu 43 prósent aðspurðra mikilvægast að Alþingi forgangsraðaði í þágu þess málaflokks og lækkar hlutfallið um 3 prósentustig milli ára.
Þar á eftir töldu 11 prósent svarenda að mikilvægast væri að lækka tekjuskatt einstaklinga og auka framlög til almannatrygginga og velferðamála. Stuðningur við síðarnefnda málaflokkinn eykst nokkuð á milli ára eða alls um 3 prósentustig.
Næstum þrefalt meiri stuðningur við aukin útgjöld til heilbrigðismála en að lækka tekjuskatt
Heilbrigðismál eru þannig efst í forgangsröðun landsmanna, því næst mennta- og fræðslumál og síðan almannatryggingar og velferðarmál. „Ljóst er af svörunum að aukin samneysla skiptir Íslendinga meira máli en skattalækkanir,“ segir í tilkynningu þingflokksins.
Þannig sé næstum þrefalt meiri stuðningur við aukin útgjöld til heilbrigðismála en að lækka tekjuskatt einstaklinga og fimmfalt meiri þegar litið sé til lækkun virðisaukaskatts. Neðst í forgangsröðun Íslendinga eru lækkun auðlindagjalda og aukin framlög til sjávarútvegsmála og kirkjunnar.
Alls voru 4.748 einstaklingar af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup til að svara netkönnun sem framkvæmd var dagana 11. september til 4. október. Alls svöruðu 2.468 manns og var þátttökuhlutfallið því 52 prósent.