Núverandi kreppa hefur komið verr niður á ungt fólk, erlenda ríkisborgara og konur með litla menntun, auk þess sem atvinnuleysi vegna hennar kemur af miklum þunga niður á íbúum Suðurnesja og Suðurlands. Þetta eru niðurstöður skýrslu sérfræðingahóps á vegum Alþýðusambands Íslands (ASÍ), Bandalags starfsmanna ríkis og bæjar (BSRB) og Bandalags háskólamanna (BHM) um efnahagsleg áhrif kreppunnar.
Í skýrslunni er athygli beint að þeim hópum sem eru í viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði, en samkvæmt höfundum hennar finna margir slíkir hópar sérstaklega fyrir efnahagslegum afleiðingum kreppunnar.
Ungt fólk og erlendir þekki síður réttindi sín
Meðal annars er bent á ójafna aldursdreifingu í atvinnuleysistölum Hagstofu, en atvinnuleysi fólks á aldrinum 16-24 ára jókst hlutfallslega hraðar en í aldurshópnum 25-64 ára milli annars ársfjórðungs áranna 2019 og 2020. Skýrsluhöfundar segja aukið atvinnuleysi ungra vera áhyggjuefni, þar sem þeir þekki réttindi sín síður en þeir sem eldri eru og sé það líklegra að þeir verði fyrir vinnumarkaðsbrotum, sérstaklega á samdráttartímum.
Einnig er sjónum beint að bágri stöðu erlendra ríkisborgara í kreppunni, en atvinnuleysi þeirra var um 12 prósent á öðrum fjórðungi þessa árs, sem er mun hærra en landsmeðaltalið var á þeim tíma. Höfundar skýrslunnar telja einnig að þessi hópur standi höllum fæti á vinnumarkaði, þar sem oft skorti upplýsingar á fleiri málum en íslensku um vinnumarkaðstengd réttindi.
Ómenntaðar konur standa höllum fæti
Til viðbótar við ungt fólk og erlenda er greint frá því í skýrslunni að vísbendingar séu um að kreppan lendi verr niður á konum heldur en körlum. Þótt að atvinnuleysi kvenna sé ekki mikið meira en hjá körlum má sjá töluverðan mun milli kynjanna ef miðað er við atvinnuleysistölur á sama tímabili í fyrra. Ef litið er á atvinnuleysistölur eftir kyni og atvinnustigi sést að konur með litla menntun hafa fundið hlutfallslega verr fyrir áhrifum kreppunnar en aðrir hópar.
Langmest atvinnuleysi á Suðurnesjum
Einnig minnast skýrsluhöfundar á ójöfn áhrif kreppunnar eftir landssvæðum, sem sést ef litið er á aukningu atvinnuleysis í ár miðað við sama tímabil í fyrra. Á Suðurnesjum hefur atvinnuleysi aukist langmest, en það er næstum því tvöfalt meira en í fyrra. Einnig hefur vinnumarkaðurinn á Suðurlandi orðið fyrir þungu höggi, þar sem atvinnuleysi hefur aukist um 68 prósent á tímabilinu mars til september í ár, miðað við sama tímabil í fyrra.
Kjarninn hefur áður fjallað um ójöfn áhrif núverandi kreppu, þar sem sýnt var fram á að konur, innflytjendur og ungt fólk finni meira fyrir henni heldur en aðrir þjóðfélagshópar. Hrun í þjónustustörfum og aukin heimavinna hafa leitt til minni atvinnuþátttöku þessara þriggja hópa og aukins atvinnuleysis. Ýmsir sérfræðingar hafa bent á að kreppan geti aukið ójöfnuð ef ekkert verði að gert, auk þess sem hætta er á félagslegri einangrun á meðal viðkvæmra hópa samfélagsins.