Yngra og tekjulægra fólk telur frekar en þeir sem eru eldri og með hærri tekjur að íslensk stjórnvöld séu að gera of lítið til að fyrirbyggja eða bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum tengdum kórónuveirufaraldrinum. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.
Alls eru 42 prósent landsmanna á þeirri skoðun að ríkisstjórnin sé að gera of lítið til að mæta vandanum, en 54 prósent telur aðgerðir hennar hafa verið hæfilegar. Einungis fjögur prósent telur að of mikið hafi verið gert.
Hjá þeim sem svöruðu, og eru undir þrítugu, töldu hins vegar 57 prósent að of lítið hefði verið gert og hjá fólki á fertugsaldri var það hlutfall 52 prósent. Í báðum aldurshópunum var hærra hlutfall á því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru of litlar en að þær væru hæfilegar.
Tekjur móta afstöðu
Það er líka merkjanlegur munur á afstöðu fólks eftir tekjum. Hjá þeim sem eru með undir 400 þúsund krónur á mánuði í laun telja 38 prósent að of lítið hafi verið gert en hjá þeim sem eru með 1.250 þúsund krónur eða meira er það hlutfall tíu prósentustigum lægra, eða 28 prósent.
Það kemur kannski lítið á óvart að stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja eru ánægðari með efnahagsaðgerðir hennar en þau sem kjósa stjórnarandstöðuflokkanna. Aðeins 23 prósent kjósenda Vinstri grænna, flokks Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, telja að of lítið hafi verið gert. Um fjórðungur kjósenda Framsóknarflokksins er á því máli og 28 prósent þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn.
Á móti eru 70 prósent kjósenda Pírata á því að efnahagsaðgerðirnar hafi verið of litlar og 60 prósent kjósenda Samfylkingarinnar er á sömu skoðun. Þeir sem styðja Miðflokkinn eru aðeins mildari í afstöðu sinni og 49 prósent þeirra telja að gera þurfi meira. Viðreisn er eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem á fleiri stuðningsmenn sem telja að aðgerðir stjórnvalda hafi verið hæfilegar (50 prósent) en þá sem telja að of lítið hafi verið gert (42 prósent).