Forsetaframboð Guðmundar Franklíns Jónssonar kostaði alls 4.650 þúsund krónur. Þar af greiddi frambjóðandinn 1.647 þúsund krónur sjálfur í framlög, einstaklingar lögðu honum til 1.813 þúsund krónur og lögaðilar 1.190 þúsund krónur. Þorri kostnaðar vegna framboðsins var vegna auglýsinga og kynningarkostnaðar, alls 3,5 milljónir króna.
Þetta kemur fram í uppgjöri sem Guðmundur Franklín skilaði inn til Ríkisendurskoðunar og var birt í vikunni. Sitjandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, eyddi einungis um þriðjungi af því sem Guðmundur Franklín eyddi, eða alls 1.516 þúsund krónum. Framboð hans keypti engar auglýsingar. Framlög til Guðna Th. frá einstaklingum og lögaðilum námu 2.129 þúsund krónur og því kom framboðið út í hagnaði, samkvæmt uppgjöri sem það skilaði til Ríkisendurskoðunar.
Þeir lögaðilar sem gáfu mest til Guðmundar Franklín voru sjávarútvegsfyrirtækið Hólmi ehf. (300 þúsund krónur), Erik the red Seafood ehf. (200 þúsund krónur), Góa-Lind sælgætisgerð ehf. (200 þúsund krónur), KFC ehf. (200 þúsund krónur) og Bakarameistarinn ehf. (200 þúsund krónur).
Einungis einn lögaðili gaf 200 þúsund krónur eða yfir til framboðs Guðna Th. Það var félagið KBK Eignir ehf. sem gaf 200 þúsund krónur.