Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands og 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands, telur að kjarabarátta á Íslandi sé að herðast, að því er fram kemur í ítarlegu viðtali við hann á Kjarnanum sem birtist á dögunum.
„Ef við horfum nokkur ár aftur í tímann – segjum áratug – þá var vissulega tekist á um málefni og var það ekki þannig að það hefði verið auðvelt að gera kjarasamninga eða semja um bætt kjör. En hins vegar var ákveðinn skilningur á því innan Samtaka atvinnulífsins að það þyrfti að eiga góð samskipti og eiga samtalið um þau málefni sem skipta máli. Það var ákveðinn skilningur á því hvernig hlutirnir þyrftu að ganga fyrir sig en það er í raun gjörbreytt í dag.
Samtök atvinnulífsins hafa stigið út fyrir öll velsæmismörk í samskiptum og það er auðvitað að hluta til að koma fram í þeirri stöðu sem hefur verið uppi núna að undanförnu þar sem þeir segja að ekkert samtal hafi orðið um þessi viðbrögð við kjarasamningum. Það er hins vegar ekki rétt hjá þeim. Það er þannig að ef þú vilt fara í samtalið þá verður þú að gera það á heildstæðum nótum. Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir samtali á þeirra forsendum og ef þú ferð inn í samtal eingöngu á forsendum annars aðilans þá skilar það aldrei neinni jákvæðri niðurstöðu fyrir heildina,“ sagði hann.
Kristján Þórður tók undir orð margra innan verkalýðshreyfingarinnar að harkan væri að aukast til muna. „Þegar við sjáum dæmi um að fyrirtæki brjóta á starfsfólki þá virðast þau oft og tíðum ganga eins langt og mögulegt er til þess að athuga hversu langt þau komast. Ég hef staðfestingu fyrir því hjá nokkrum fyrirtækjum að Samtök atvinnulífsins hafi ráðlagt fyrirtækjum að ganga lengra en kjarasamningar leyfa. „Sjáðu hversu langt þú kemst,“ er sagt.
Bara það að fulltrúi fyrirtækjanna sé að ráðleggja þeim að ganga í raun gegn kjarasamningum, sem þeir hafa sjálfir skrifað undir, er auðvitað ávísun á slæm samskipti. Það er þessi þáttur sem veldur því að í dag er ekkert traust á milli samtakanna eða sáralítið – og samskiptin verða því erfið við þessar aðstæður,“ sagði hann.
Þá sagðist Kristján Þórður hafa miklar áhyggjur af því að framkoma Samtaka atvinnulífsins ylli því að það yrði meiri harka í samskiptum og erfiðara að ná samkomulagi um atriði sem skipta máli. „Ef þú getur ekki treyst því að samningur sem þú gerir standi þá auðvitað gerir þú ekki samning.“
Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.