Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins gerir ekki athugasemdir við Facebook-færslur Ásmundar Friðrikssonar þingmanns flokksins um komur hælisleitenda til Íslands, sem hafa vakið athygli að undanförnu.
Hann segist telja að þingmaðurinn sé að benda á að á sama tíma og illa gangi að afgreiða beiðnir umsækjenda um alþjóðlega vernd falli til „gríðarlega mikill kostnaður“, sem sé slæmt, ekki síst þegar verið sé að reka ríkissjóð með 260 milljarða halla. Þessu segist Bjarni sammála.
Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í hádegisfréttum RÚV í dag, en þar sagði fjármálaráðherra einnig að það ætti að reyna að hraða málsmeðferð hjá þeim umsækjendum um alþjóðlega vernd sem „munu augljóslega ekki fá jákvæða niðurstöðu í sín mál.“ Í dag væri ríkið að jafnaði að halda um það bil 500 manns uppi á hverjum tíma og verði til þess um 4 milljörðum á ári.
„[V]ið verðum að horfa í þessar tölur um leið og við höfum skýra afstöðu til þess að við Íslendingar ætlum að axla okkar ábyrgð með öðrum löndum í heiminum til þess að koma þeim til aðstoðar sem eru að flýja hörmulegar aðstæður,“ sagði Bjarni.
Ásmundur Friðriksson hefur að undanförnu birt færslur á Facebook þar sem hann greinir frá komum hælisleitenda til landsins, svo gott sem í rauntíma. Á sunnudaginn, 11. október, birti hann síðast slíka færslu og sagði þá að síðustu þrjár vikurnar hefðu 54 hælisleitendur komið til landsins og reiknaði út að það myndi kosta ríkið á fjórða hundrað milljónir króna.
Hann hefur ekki viljað segja hvaðan hann fær upplýsingarnar um komur fólksins hingað til lands, sem liggja ekki opinberlega fyrir. Í viðtali við Kjarnann fyrr í vikunni sagðist hann hafa fengið símtöl og skilaboð um að tiltekinn fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd hefði komið til landsins um Keflavíkurflugvöll.
Ásmundur telur að sumir hælisleitendur komi hingað til lands á fölskum forsendum til þess að sækjast eftir betra lífi – betra lífsviðurværi og lífskjörum. „Það fólk á auðvitað að koma hingað á öðrum forsendum. Það á að sækja um landvistarleyfi og vinnu. Fá atvinnuleyfi eins og útlendingar þurfa að gera. Og þá þurfa þeir að gera það áður en þeir koma til landsins, ekki éta vegabréfið sitt á leiðinni,“ sagði Ásmundur.
Þingmaðurinn hefur verið gagnrýndur fyrir orðræðu sína í garð þeirra sem hingað koma og sækja um alþjóðlega um vernd nokkuð reglulega á undanförnum árum, ekki síst fyrir að stilla umræðunni upp með þeim hætti að Íslendingar eigi nóg með sig sjálfa.
„Þrengingar eru á húsnæðismarkaði. Heimafólk er sett á götuna á meðan margar íbúðir, gistiheimili og gamlir skólar eru setin hælisleitendum. Nábýlið við suma þeirra er svo eldfimt að það dugar ekki minna en sérsveit lögreglunnar ef stilla þarf til friðar,“ skrifaði Ásmundur í Morgunblaðsgrein fyrir þremur árum síðan, þegar efnahagsástandið á Íslandi var allt annað og mun betra en það er í dag.
Nú segist Ásmundur telja að Íslendingar eigi nóg með sig vegna COVID-kreppunnar og sagði þingmaðurinn við Kjarnann í vikunni að honum þætti „rétt að taka þráðinn aðeins upp“ og ræða um kostnað vegna hælisleitenda, eftir að hafa lagt sig fram um að hafa frið í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks við Vinstri græn og Framsóknarflokk undanfarin þrjú ár.