Stjórnvöld ættu að gera betur grein fyrir 100 milljarða króna aðhaldsaðgerðir sem eru boðaðar fyrir árin 2023 og 2024 í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs um fjárlög og fjármálaáætlun, sem skilað var til fjárlaganefndar Alþingis á mánudaginn.
Í umsögninni skrifar Viðskiptaráð að stjórnvöld sýni ábyrgð með stefnu sinni um að mæta efnahagsþrengingum til skamms tíma með auknum slaka og stuðningi, í stað þess að herða aðhald í ríkisfjármálum. Slík viðbrögð mildi efnahagslegu áhrif faraldursins á meðan einkageirinn eigi undir högg að sækja.
Hins vegar telur ráðið að mikilvægt sé að ná jafnvægi í rekstri ríkissjóðs til þess að hagkerfið geti vaxið og starfsemi þess verði sjálfbær til lengri tíma. Þar gagnrýnir Viðskiptaráð ríkisstjórnina fyrir að vera ekki nógu skýra í fjármáláætlun sinni, sem tilgreinir aðeins óskilgreindar „afkomubætandi ráðstafanir" upp á samtals 96 milljarða króna á árunum 2023 og 2024 til þess að rétta af hallarekstur hins opinbera.
Skattahækkanir og niðurskurður
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur fram að þessum „ráðstöfunum" yrði skipt jafnt á tekju- og útgjaldahlið ríkissjóðs, en þær komi einungis fram á útgjaldahlið sveitarfélaga.
Með öðrum orðum þýðir þetta að búast megi við skattahækkunum og niðurskurði hjá hinu opinbera, auk niðurskurðar í þjónustu hjá sveitarfélögunum, á tímabilinu 2023-2025. Á þessu tímabili gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að umfang þessara ráðstafanna geti numið 35-40 milljörðum króna árlega.
Viðskiptaráð nefnir í umsögninni að best væri ef stjórnvöld sýndu á spilin í þeim efnum til að auka trúverðugleika áætlunarinnar og auka líkurnar á að markmiði um sjálfbærni í ríkisfjármálum verði náð.
Of bjartsýn um komufarþega
Ýmsar aðrar athugasemdir fylgja í umsögn ráðsins, til að mynda efast það um að 900 þúsund ferðamenn komi til landsins á næsta ári eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu í ljósi þess hversu harðar sóttvarnaraðgerðirnar eru á landamærunum þessa stundina. Að mati Viðskiptaráðs þyrftu stjórnvöld að skýra betur frá þessari forsendu, sem samtökin telja að hverfandi líkur séu á að gangi eftir.
Samtök ferðaþjónustunnar taka undir þá gagnrýni í sinni umsögn um fjárlagafrumvarpið og fjármálaáætlunina sem Kjarninn fjallaði um fyrr í vikunni. Í þeirri umsögn er sagt að forsendur fjárlaganna fyrir næsta ár brostnar ef ekkert liggur fyrir um aðra aðferðarfræði gagnvart ferðamönnum og sóttvörnum en þá sem sé í gildi þessa stundina.
Aukin fjárfesting og endalok Jöfnunarsjóðs
Einnig hvetur Viðskiptaráð til aukinnar fjárfestingar, meðal annars með samvinnuleiðum (e. Public-Private Partnership) og meiri framlögum til nýsköpunarmála. Samtökin kalla líka eftir skattalega hvata til nýsköpunar, eins og endurgreiðslur frá hinu opinbera vegna rannsóknar og þróunar, auk sérstakra frumkvöðlasjóða.
Sjónum er einnig bent að sveitarfélögum, en að mati Viðskiptaráðs ættu stjórnvöld að ráðast í róttæka endurskipulagningu í fjárstuðningi til þeirra. Ráðið kallar eftir því að leggja Jöfnunarsjóð niður, þar sem smærri sveitarfélög fái hærri framlög úr honum heldur en þau stærri.