Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur óska eftir því að nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar ræði við fulltrúa lögreglunnar um rasisma innan lögreglunnar og aðferðir til að sporna við honum. Þetta kom fram í ræðu hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Tilefnið er mynd af merkjum á búningi lögreglukonu en málið hefur vakið miklar umræður á samfélagsmiðlum í dag.
„Ljósmynd Morgunblaðsins af lögreglukonu sem bar merki hvítra þjóðernissinna og táknmynd teiknimyndaandhetjunnar „The Punisher“ eða Refsarans, með leyfi forseta, við skyldustörf sín hefur vakið verkskuldaða athygli í dag.
Punisher-merkið er ekki sakleysisleg tilvísun í teiknimyndapersónu úr Marvel-heiminum heldur táknmynd lögreglunnar vestan hafs sem refsandi afls þeirra sem taka lögin og refsingar í eigin hendur og sneiða fram hjá réttarkerfinu,“ sagði þingmaðurinn.
Viðhorf sem geta ekki talist æskileg
Þá benti Þórhildur Sunna á að skilaboðin með merkinu væru þau að lögreglan hefði það hlutverk að refsa borgurunum fyrir ætluð lögbrot þeirra, rétt eins og Refsarinn gerði – en slík viðhorf gætu ekki talist æskileg í samfélagi sem segðist að minnsta kosti styðja betrunarstefnu og réttarríki.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lýst yfir á Twitter að hún hafi ítrekað við allt sitt starfsfólk að lögreglumenn eigi ekki að bera nein merki sem ekki eru viðurkennd á lögreglubúningi og því verði fylgt eftir.
Hún segir það vissulega vera jákvæðar fréttir en „betur má en duga skal“. Sérstaklega í ljósi ummæla lögreglukonunnar sem um ræðir sem sagði í samtali við Vísi í dag að merki sem þessi væru notuð af mörgum lögreglumönnum og að hún teldi ekki að þau þýddu neitt neikvætt. Hún hefði sjálf borið merkin í áraraðir.
„Ummæli lögreglukonunnar benda til þess að annað hvort skorti mikilvæga fræðslu innan lögreglunnar um rasísk og ofbeldisfull merki eins og Vínlandsfánann og punisher- eða refsaramerkið – nú eða það sem verra væri: Að rasismi og ofbeldisfull menning fái að grassera innan lögreglunnar. En hvoru tveggja er óásættanleg staða.“