„Það er alveg skýrt, haturstákn og sjónarmið verða ekki liðin innan lögreglunnar, ekki nú né framvegis. Ef við þurfum að auka menntun eða taka á því með einhverjum hætti sem yfirstjórn lögreglunnar telur rétt, þá gerum við það,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Twitter í dag.
Tilefni þessarar yfirlýsingar ráðherra er sú umræða sem skapaðist í gær vegna vafasamra merkja sem lögreglumaður bar á undirvesti sínu við skyldustörf og sáust á mynd sem fylgdi frétt á mbl.is. Myndin var tekin árið 2018.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást við málinu með því að taka fram að hún styddi ekki með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem ýttu undir slíkt og sagðist harma að hafa valdið fólki særindum.
Skilaboðin á merkjunum voru sögð í engu samræmi við fræðslu, stefnu og markmið lögreglunnar og lögreglumönnum hjá embættinu voru send skýr fyrirmæli um að fjarlægja öll merki af lögreglubúningum sínum sem ekki væru í samræmi við reglugerð.
Dómsmálaráðherra telur að lögregluembættið hafi brugðist rétt við málinu í gær og með afgerandi hætti, en hún segir það líka lögreglumanna að vera meðvitaðir um að gefa ekki nein slík merki frá sér, ekki „með táknum orðum né handahreyfingum.“
„Núna liggur það fyrir skýrar en nokkru sinni og öllum ætti að vera ljóst hvaða þýðingu einstök merki hafa. Við munum því gera meiri kröfur héreftir,“ skrifar dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna segist halda að við „séum flest sammála um það að íslenskir lögreglumenn leggi sig almennt fram við að koma fram við fólk af vinsemd og virðingu“ og bætir við að lögreglan eigi að sýna fram á að hún starfi og þjóni öllum þeim sem hér búa og dvelja,“ og að það telji hún hana gera.
Verður tekið til umræðu í lögregluráði
Hún segir að ríkislögreglustjóri muni ræða mál sem snúa að klæðnaði lögreglumanna og kynþáttafordómum á fundi lögregluráðs, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynnti í gær að málið hefði verið sent til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu.
Það er alveg skýrt, haturstákn og sjónarmið verða ekki liðin innan lögreglunnar, ekki nú né framvegis. Ef við þurfum að auka menntun eða taka á því með einhverjum hætti sem yfirstjórn lögreglunnar telur rétt, þá gerum við það.
— Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (@aslaugarna) October 22, 2020
Málið var til umræðu á Alþingi í gær, en Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata hefur óskað eftir því að nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar ræði við fulltrúa lögreglunnar um rasisma innan lögreglunnar og aðferðir til að sporna við honum vegna málsins.
„Ljósmynd Morgunblaðsins af lögreglukonu sem bar merki hvítra þjóðernissinna og táknmynd teiknimyndaandhetjunnar „The Punisher“ eða Refsarans, með leyfi forseta, við skyldustörf sín hefur vakið verkskuldaða athygli í dag.
Punisher-merkið er ekki sakleysisleg tilvísun í teiknimyndapersónu úr Marvel-heiminum heldur táknmynd lögreglunnar vestan hafs sem refsandi afls þeirra sem taka lögin og refsingar í eigin hendur og sneiða fram hjá réttarkerfinu,“ sagði þingmaðurinn.