Virkni framleiðslufyrirtækja á Íslandi og annars staðar í Evrópu hefur aukist töluvert á undanförnum mánuðum og er hún nú nálægt því sem hún var áður en efnahagskrísan vegna útbreiðslu kórónuveirunnar dundi yfir. Evrópskir framleiðendur benda á að fyrirtækin hagnist á aukinni einkaneyslu í Kína.
Útflutningskippur og hærra álverð
Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofu um vöruútflutning í september hefur virði útflutnings á iðnaðarvörum minnkað lítillega síðustu mánuðina, miðað við árið á undan. Í síðasta mánuði jókst útflutningurinn um rúman fimmtung milli mánaða og nam tæpum 26 milljörðum króna, sem er meira en meðaltal síðustu tveggja ára.
Aukinn útflutningur á iðnaðarvörum er í samræmi við þróun heimsmarkaðsverðs á áli, en líkt og sjá má á mynd hér að neðan hefur álverð náð fyrri hæðum á síðustu mánuðum eftir að hafa tekið skarpa dýfu við byrjun efnahagskrísunnar í vor.
Öfugt við þróun í þjónustu
Breska blaðið Financial Times greindi frá batnandi árferði framleiðslufyrirtækja í Evrópu fyrr í dag, en samkvæmt henni hefur iðnaðarframleiðsla aukist töluvert í álfunni á síðustu mánuðum eftir mikinn samdrátt í vor. Þessi þróun er öfug þeirri í þjónustugeiranum, en virkni hans heldur áfram að minnka í Evrópu í síðasta mánuði.
Endurreisn iðnaðarfyrirtækja hefur verið sérstaklega mikil á Ítalíu, þar sem framleiðsla í geiranum hefur náð sama stigi og hún var á áður en núverandi kreppa skall á. Í Þýskalandi hefur iðnaðarframleiðsla einnig aukist, þótt enn vanti tíu prósent upp á að hún nái fyrri styrk.
Meiri neysla í Kína kemur til bjargar
Stór hluti iðnaðarframleiðslu Evrópuþjóða er í bílaiðnaðinum. Á meðan eftirspurn eftir bílum mælist enn lítil jókst hún milli mánaða í september, auk þess sem hún hefur aukist utan Evrópu.
Í viðtali við Financial Times sagði Stefan Klebert, framkvæmdastjóri þýska framleiðandans Gea Group, sem framleiðir meðal annars meira en helminginn af bjórbruggvélum heimsins, að viðspyrnan í Kína leiði áfram eftirspurn eftir vörum félagsins.
Blaðið tók einnig viðtal við Ola Kallenius, sem er framkvæmdastjóri bílaframleiðandans Daimler, sem framleiðir meðal annars Mercedes Benz-bíla. Kallenius sagði aukninguna í sölu bíla í Kína hafa verið „stórkostlega“. „Þetta er nánast of gott til að vera satt,“ bætti hann við. „Kínverjar hafa náð V-laga viðspyrnu í efnahagi sínum.“