Skuldir borgarsjóðs Reykjavíkurborgar á hvern íbúa nema um 856 þúsund krónum, sem er lægra en hjá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þrátt fyrir það er þjónustustigið í Reykjavík næstmest á höfuðborgarsvæðinu á eftir A-hluta Seltjarnarnesbæjar, ef gert er ráð fyrir að það endurspeglist í rekstrarkostnaði á hvern íbúa.
Þetta kemur fram þegar A-hlutar ársreikninga sveitarfélaga fyrir árið 2019 eru bornir saman í árbók sveitarfélaga. A-hlutarnir eru aðalsjóðir sveitarfélaganna sem eru að mestu eða öllu leyti fjármagnaðir með skatttekjum.
Samkvæmt reikningunum var rekstrarniðurstaða þeirra allra jákvæð í fyrra, nema hjá Seltjarnarnesbæ. A-hlutar Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar högnuðust um rúman milljarð, á meðan bæjarsjóðir Hafnarfjarðar og Mosfellsbæjar högnuðust um 3-400 milljónir. Garðabær hagnaðist svo um tæpar 100 milljónir, sem er svipuð upphæð og tap Seltjarnarnesbæjar.
Sökum stærðarmunar sveitarfélaganna var rekstrarkostnaður þeirra mjög breytilegur. Í Reykjavík, sem er stærsta sveitarfélagið, nam hann um 122 milljörðum króna, sem er 27 sinnum meira en í minnsta sveitarfélaginu, Seltjarnarnesi.
Ef tekið er tillit til mismunandi mannfjölda sveitarfélaganna er rekstrarkostnaður á hvern íbúa mestur á Seltjarnarnesi, þar sem hann nemur 943 þúsundum króna. Í öðru sæti er Reykjavíkurborg þar sem borgarsjóður ver 934 þúsundum króna á hvern íbúa sveitarfélagsins. Í Kópavogsbæ er hann þó um 15 prósentum minni og nemur um 795 þúsund krónum á hvern íbúa.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, bar saman skuldir hvers sveitarfélags á höfuðborgarsvæðinu eftir mannfjölda á Facebook-síðu sinni í gær. Samkvæmt þeim samanburði eru skuldirnar í A-hluta Reykjavíkurborgar lægstar, en þær nema um 856 þúsundum króna á hvern íbúa sveitarfélagsins.
Á mynd hér að ofan má sjá skuldir á hvern íbúa hjá A-hluta sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins, en samkvæmt henni eru skuldirnar hæstar í Hafnarfjarðarbæ þar sem þær nema yfir 1,3 milljón króna. Í Kópavogi, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi nema skuldir A-hlutans einnig yfir milljón á hvern íbúa, en þær eru 925 þúsund krónur fyrir hvern íbúa Garðabæjar.
Ef litið er á skuldahlutfall sveitarfélaganna, þ.e.a.s. hlutfall skulda af heildareignum, blasir við svipuð mynd. Hlutfallið er lægst í Reykjavík, Garðabæ og á Seltjarnarnesi í rúmum 50 prósentum, en hæst í Hafnarfirði þar sem það nær heilum 85 prósentum.