FATF, alþjóðlegur fjármálaaðgerðahópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, hefur ákveðið að fjarlægja Ísland af gráum lista samtakanna vegna úrbóta sem gerðar hafa verið í vörnum gegn þeim málum.
Mbl.is greinir fyrst frá þessu, þar sem vísað er í blaðamannafund sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir boðaði til í dag. Í fréttatilkynningu segir að ákvörðunin um að taka Ísland af gráa lista FATF hafi verið tekin í kjölfar vettvangsathugunar sem fram fór hér á landi í lok september, þar sem staðfest væri af hálfu sérfræðinga á vegum FATF að lokið hefði verið með fullnægjandi hætti við þær aðgerðir sem Íslandi var gert að grípa til í því skyni að komast af umræddum lista.
„Við sama tilefni var jafnframt staðreynt af hálfu umræddra sérfæðinga að til staðar væri ríkur pólitískur vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að halda áfram vinnu við að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,“ segir einnig í tilkynningunni.'
FATF setti Ísland á gráan lista samtakanna í október árið 2019, meðal annars vegna þess að þau töldu skort vera á upplýsingum um eignarhald íslenskra félaga. Samtökin gáfu eftirliti hér á landi með peningaþvætti falleinkun í kjölfar úttektar sem þau gerðu á Íslandi, en sú niðurstaða lá fyrir vorið 2018.
Í kjölfar skráningar Íslands á listann mættu bæði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Þar kom fram að stjórnvöld stefndu að því að komast af listanum á fundi samtakanna í febrúar 2020. Það gekk hins vegar ekki upp og ákváðu FATF að halda Íslandi á listanum eftir febrúarfund þeirra.