Mynd: 123rf.com

Af hverju er Ísland á gráa listanum?

Ísland rataði fyrr í þessum mánuði á svokallaðan gráan lista vegna ónógra varna gegn peningaþvætti. Ráðamenn hafa lýst mikilli vanþóknun á því að Ísland hafi verið sett á listann og ítrekað fullyrt að hér hafi eftirlit að mestu verið með viðunandi móti, auk þess sem brugðist hafi verið við ábendingum. En hvernig má þá vera að framsækna lýðræðisríkið Ísland geti ratað á svona lista, og í þann félagsskap sem þar er að finna, eitt ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins?

Hvað gerðist?

Í apríl 2018 skilaði Financial Action Task Force (FATF), alþjóðleg samtök sem hefur það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð, skýrslu um Ísland, sem hefur verið aðili að samtökunum frá árinu 1991. Með því að gerast aðili að samtökunum þá skuldbatt Ísland sig til að undirgangast og innleiða þau skilyrði sem samtökin telja að þurfi að uppfyllast.

Í skýrslu FATF fékk peningaþvættiseftirlit Íslendinga falleinkunn. Alls var gerð athugasemd við 51 atriði í laga- og reglugerðarumhverfi Íslands og því hvernig við framfylgjum eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Á meðal þess sem þar kom fram var að íslensk stjórnvöld litu ekki á rannsóknir á peningaþvætti sem forgangsmál. Þeir litlu fjármunir sem settir voru í að koma upp um, rannsaka og saksækja peningaþvætti voru þar lykilatriði. Afleiðingin var meðal annars sú að takmarkaðar skráningar höfðu verið á grunsamlegum tilfærslum á fé utan þess sem stóru viðskiptabankarnir og handfylli annarra fjármálafyrirtækja framkvæma. Þá skorti einnig á að að upplýsingum um hreyfingar á fé og eignum væri deilt með viðeigandi stofnunum í öðrum löndum.

Í skýrslu FATF var tekið fram að aðal áherslan á Íslandi á árunum 2008 til 2015 hafi verið á að rannsaka og saksækja mál tengd bankahruninu. Á þeim tíma hafi rannsakendur og ákærendur sýnt af sér mikla getu til að starfa með öðrum og ná árangri í saksókn þeirra mála sem ráðist var í. Þrátt fyrir mikla velgengni þessara mála, að mati FATF, þá gerði það mikla fjáraustur sem fór í saksókn hrunmálanna það að verkum að önnur mál sátu á hakanum.

Á meðal þess sem sat á þeim haka var innleiðing á aðgerðum til að koma í veg fyrir peningaþvætti og varnir til að berjast gegn fjármögnun hryðjuverkasamtaka.

Sérstaklega var fjallað um fjármagnshöftin sem voru við lýði á Íslandi frá nóvember 2008 og fram í mars 2017. Í skýrslu FATF sagði: „Þessum höftum var lyft í mars 2017 og yfirvöld hafa ekki tekið tillit til þeirra áhrifa sem það geti haft á áhættu vegna peningaþvættis/fjármögnun hryðjuverkasamtaka í landinu.“

Þá kom einnig fram að íslensk stjórnvöld áttuðu sig á því að skipulögð glæpastarfsemi, meðal annars í kringum fíkniefnaviðskipti eða mansal, væri starfrækt í landinu og að vöxtur sé í þeirri starfsemi á síðustu árum. Mat stjórnvalda væri að hundruð milljóna króna fari um hendur þessara aðila á ári hverju.

Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á jafnvel á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.

Átti þessi staða að koma á óvart?

Stutta svarið er nei. FATF hóf eftirlit með Íslandi af einhverri alvöru á árunum fyrir hrun og skiluðu fyrstu skýrslu sinni um ástandið hér í október 2006. Í niðurstöðunum var því lýst yfir að samtökin hefðu áhyggjur af virkni eftirlits með peningaþvætti á Íslandi. 

Bæði Fjármálaeftirlitið og embætti ríkislögreglustjóra fengu athugasemdir fyrir að hafa ekki veitt nægilegum kröftum í málaflokkinn. 

Helgi Magnús Gunnarsson, sem var saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á árunum 2006 til 2011, segir að eftirfarandi um áhuga á rannsókn efnahagsbrota fyrir hrun, þar með talið peningaþvætti, en skrifstofa sem átti að hafa eftirlit með því heyrði undir hann. „Stjórn­mála­menn réðu þessu eins og oft­ast með ákvörð­unum sínum um fjár­veit­ing­ar. Það hafði eng­inn áhuga á að leggja manni lið í þessu þegar eftir því var leit­að. Menn sem læra allt sem þeir vita um lög­gæslu af því að horfa á amer­íska löggu­þætti, hafa fullan skiln­ing ef það þarf að kaupa riffla eða annan búnað fyrir sér­sveit, en engan þegar skiln­ing­ur­inn kallar á vits­muna­lega þekk­ingu og þeir þurfa að lesa sér til. Þetta átti við um rann­sóknir efna­hags­brota yfir það heila. Svo allt í einu vökn­uðu menn við hrunið og fóru að skilja að kannski gætu refsilaga­brot í atvinnu­líf­inu haft afleið­ingar jafn vel fyrir þá sjálfa. En að ein­hver hafi haft áhuga á að hlusta á okkur sem höfðum á þessu þekk­ingu, það var ekki. Við gerðum það sem við gátum með það sem við höfð­u­m.“

„Mennirnir“ sem Helgi Magnús talar um segir hann vera stjórnmálamenn þess tíma, ráðuneyti dómsmála og embætti ríkislögreglustjóra. Eyjólfur Ármanns­son, sem starf­aði á árum áður sem aðstoð­ar­sak­sókn­ari hjá efna­hags­brota­deild rík­is­lög­reglu­stjóra og þar áður hjá Fjár­mála­eft­ir­lit­inu á árunum 2006 til 2011, hefur sagt að ekki hafi verið nokkur skiln­ingur á mik­il­vægi þessa mála­flokks á æðstu stöðum í stjórn­kerf­inu og áhugi og stuðn­ingur við hann eftir því. „Við­horfið var að hér væri mála­flokkur úr öðrum heimi sem kæmi Íslandi í raun lítið við. Þetta væri eitt­hvað útlenskt, við­horf sem er áhuga­vert menn­ing­ar­legt fyr­ir­bæri innan íslenskrar stjórn­sýslu. Við yrðum samt að vera með sjóv og taka þátt. Fyrir Hrun sýndu bank­arnir áhuga. Aðal­at­riðið var að Ísland redd­aði sér með laga­breyt­ing­um. Svipað við­horf virð­ist vera í gangi í dag.“

Eyjólfur sagði einnig að hann hafi einu sinni sagt við sam­starfs­mann sinn í ráðu­neyti, þegar hann starf­aði þar, sem hafði mála­flokk­inn á sinni könnu að Ísland ætti bara senda íslenskan borð­fána á fund FATF. Það væri lýsandi fyrir áhuga landsins á málaflokknum.

í úttektum sem Fjármálaeft­ir­litið gerði árið 2007 á stóru íslensku bönkunum voru gerðar alvar­legar athuga­semdir við fram­kvæmd eft­ir­lits með pen­inga­þvætti. Þeirri nið­ur­stöðu var ekki fylgt eftir „vegna starfs­manna­skorts og sér­stakra aðstæðna á fjár­mála­mark­að­i.“

Eftir hrunið starfaði einn maður, í mesta lagi, á peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra. Gengið var út frá því að peningaþvætti ætti sér ekki stað á Íslandi, en það ekki kannað sérstaklega af neinum. 

Hafði FATF varað okkur við síðan að við værum ekki með hlutina í lagi?

Já. Peningaþvættisskrifstofan var færð yfir til embættis héraðssaksóknara um mitt ár 2015, í kjölfar þess að FATF gerði alvarlega athugasemdir við virkni hennar. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari var spurður að því í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut 3. október í fyrra hvort aðgerðir Íslendinga til að koma í veg fyrir að peningaþvætti hefðu verið viðunandi á undanförnum árum. „Þessu eru auðsvarað,“ sagði Ólafur, „nei það er það ekki.“.

Ólafur Þór sagði í áðurnefndu viðtali að þegar embætti hans tók við peningaþvættisskrifstofunni um mitt ár 2015 hafi FATF verið búið að setja Íslandi hálfgerða úrslitakosti. Það var mörgum árum áður en hin svarta skýrsla, sem sýndi falleinkunn, lá fyrir vorið 2018, þar sem sett var fram skýr hótun um að setja Ísland á lista ef við löguðum ekki til heima hjá okkur. 

Hvernig brugðust íslensk stjórnvöld við?

Að flestu leyti mjög vel. Ráðist var í margháttaðar aðgerðir. Skýrsla FATF ýtti verulega við málum hérlendis. Það þurfti að bregðast við þessum athugasemdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins yrði tekin upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í desember 2018.

Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra var því settur í að semja frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen, þaverandi dómsmálaráðherra, lagði fram frumvarp um ný heildarlög 5. nóvember síðastliðinn. Málið var afgreitt frá efnahags- og viðskiptanefnd 12. desember og síðari tvær umræður kláraðar daginn án annarra ræðuhalda en Brynjars Níelssonar, sem mælti fyrir nefndaráliti um málið sem fulltrúar alla flokka skrifuðu undir.

Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gildi þann 1. janúar 2019.

Fjölgað hefur mjög á því sem áður hét peningaþvættisskrifstofa héraðssaksóknara en heitir nú skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, fjármunir hafa verið settir í að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um peningaþvætti og eftirlit með starfsemi innan bankanna sjálfra hefur verið eflt.

Þá gaf stýri­hópur dóms­mála­ráð­herra um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka út nýjan fræðslu­bæk­ling sem bein­ist að því að fræða almanna­heilla­fé­lög um góða stjórn­ar­hætti til að koma í veg fyrir að starf­semi þeirra sé mis­not­uð auk þess sem lög um almannaheillafélög voru uppfærð fyrr í október.

Var framkvæmt áhættumat og gerð aðgerðaráætlun til að taka á varnarleysinu?

Já, áhættumat ríkislögreglustjóra um peningaþvætti var birt í apríl 2019. Þar kom fram að hérlendis taldist greind ógn varð­andi pen­inga­þvætti vera mikil þegar kom að frum­brotum skattsvika, pen­inga­send­ing­um, einka­hluta­fé­lög­um, raun­veru­legum eig­end­um, flutn­ingi reiðu­fjár til og frá land­inu, starf­semi sem stundar reiðu­fjár­við­skipti, starfsemi lög­manna, misnotkun á spila­kössum og vegna aflétt­ingu fjár­magns­hafta. 

Þá tald­ist greind ógn vera veru­leg þegar kom að inn­lán­um, útgáfu rafeyris, greiðslu­þjón­ustu, skráðum trú- og lífs­skoð­un­ar­fé­lög­um, sjóðum og stofn­unum sem ­starfa sam­kvæmt stað­festri skipu­lags­skrá, öðrum almanna­heilla­fé­lög­um, reiðufé í umferð, end­ur­skoð­end­um, fast­eigna­söl­um, vöru og þjón­ustu og kerfis­kenni­töl­u­m. 

Í aðgerð­ar­á­ætlun stjórn­valda gegn pen­inga­þvætti, sem birt var í ágúst 2019, voru kynntar margháttaðar og umfangsmiklar aðgerðir til að bregðast við þessu. Framfylgd þeirra teygir sig í mörgum tilfellum inn í framtíðina og því liggur ekki fyrir hversu vel tekst að innleiða þá framfylgni í verki. Meðal þess sem þar sérstaklega fjallað um var að gjald­eyr­is­eft­ir­lit Seðla­­bank­ans skorti, og hafi skort, þekk­ingu á hætt­u­­merkjum og aðferðum við pen­inga­þvætti. Engar laga­­legar skyldur hafi hvílt á Seðla­­bank­­anum vegna aðgerða gegn pen­inga­þvætti þrátt fyrir að hann haft umsjón með öllu gjald­eyr­is­eft­ir­liti og losun hafta á und­an­­förnum árum þegar hund­ruð millj­­arða króna hafa verið flutt til og frá land­inu. Þetta þurfi að laga. 

Hvernig var eftirliti með fjármagnsflutningum til og frá Íslandi háttað á árunum eftir hrun?

Seðlabanki Íslands stýrði því hverjir fengu að færa peninga inn og út úr íslensku hagkerfi á meðan að höft voru í landinu. Til þess bauð hann upp á margskonar leiðir, meðal annars hina umdeildu fjárfestingarleið. 

Seðlabanki Íslands sýndi ekki eiginlegu eftirliti með því hvort verið væri að þvætta fé í gegnum þessar leiðir heldur taldi að það væri hlutverk banka að sinna því eftirliti, og Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með því að bankarnir stæðu sig. 

Fjár­mála­eft­ir­litið gerði engar sérstakar úttektir á þessu fyrr en haustið 2018, þegar það hóf  athugun á aðgerðum Arion banka gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka. Slík athugun á Arion banka hófst í októ­ber 2018 og leiddi til þess að eft­ir­litið gerði marg­hátt­aðar athuga­semdir við brotala­mir hjá bank­anum í jan­úar 2019. Í athugun eftirlitsins á Arion banka kom meðal ann­ars fram að bank­inn hefði ekki metið með sjálf­­stæðum hætti hvort upp­­lýs­ingar um raun­veru­­lega eig­endur við­­skipta­vina væru réttar og full­nægj­andi og að þær upp­­lýs­ingar hafi ekki verið upp­­­færðar með reglu­­legum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka gerðu ráð fyr­­ir. 

Eft­ir­litið gerði einnig athuga­­semd um að Arion banki hefði ekki sinnt rann­­sókn­­ar­­skyldu sinni í til­­viki erlends við­­skipta­vin­­ar, það taldi að reglu­bundið eft­ir­lit bank­ans með við­­skipta­vinum hafi ekki full­nægt kröfum laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka né að verk­lag í tengslum við upp­­­færslu á upp­­lýs­ingum um við­­skipta­vini hafi ekki verið full­nægt. Þá taldi Fjármálaeftirlitið að skýrslur Arion banka um grun­­sam­­legar og óvenju­­legar færslur hefðu ekki verið full­nægj­andi. Arion banki seg­ist hafa brugð­ist við öllum þessum athuga­semdum síðan þá. Ekki fást upplýsingar hjá Fjármálaeftirlitinu um hvað úttektir á ríkisbönkunum tveimur, Íslandsbanka og Landsbanka, og einkabankanum Kviku banka skiluðu. 

En fyrir liggur að Seðlabanki Íslands kannaði ekki uppruna fjármuna þeirra sem nýttu sér leiðir hans inn í íslenskt hagkerfi, bankar sem áttu að gera það mátu ekki með sjálfstæðum hætti upplýsingar um hverjir væru raunverulegir eigendur fjármuna og Fjármálaeftirlitið hóf ekki könnun á burðarþoli bankanna í þessu eftirliti fyrr en fyrir um ári síðan.

Hvað gerðist á fundi FATF í október? 

Ákveðið var að setja Ísland á gráan lista FATF vegna ónógra varna gegn pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka. Það er ekki jafn slæmt og að lenda á svarta listanum, en þangað rata ríki sem sýna engan vilja til að bæta úr brotalömum hjá sér. Ísland bætt­ist á gráa list­ann ásamt Mongólíu og Simbabve. 

Af list­anum fóru Eþíópía, Sri Lanka og Tún­is. Á meðal ann­arra ríkja sem þar er að finna, og talin eru að séu með alvar­lega ann­marka á sviði varna gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka, eru Kam­bó­día, Jem­en, Sýr­land og Panama. 

Vera Íslands á listanum gæti leitt til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi bíði verulegan hnekki. Hún gæti líka leitt til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti. Á það á eftir að reyna almennilega.

Mun Ísland vera lengi á gráa listanum?

Nei, líkast til mun Ísland losna af honum í febrúar 2020 eða í síðasta lagi þá um sumarið. Búið er að ráðast í mjög umfangsmiklar úrbætur vegna þeirra athugasemda sem FATF gerði snemma á síðasta ári og eftir standa aðallega þrír þættir: bæting á upplýsingum um og skráningu á raunverulegum eigendum félaga, innleiðing á upplýsingakerfi á skrifstofu fjármálagreininga lögreglu sem á að vera að fullu að vera komið í gagnið í apríl 2020 og auka eftirlit með eftirfylgni við þving­un­­ar­að­­gerðir og yfir­­­sýn yfir starf­­semi almanna­heilla­­fé­laga.

Eftir stendur að stjórnvöld hafa ekki lýst yfir áhyggjum af því að Ísland virðist hafa verið galopið fyrir peningaþvætti árum saman, áður en yfirstandandi átak hófst í fyrra. Og þau hafa ekki boðað neina rannsókn á því að kanna hvort að fjármunir hafi verið „þvegnir“ í gegnum íslenskt efnahagskerfi.


Lestu meira um peningaþvætti:

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar