Ný útlán banka til atvinnufyrirtækja landsins, að frádregnum uppgreiðslum og umframgreiðslum, hafa numið 18,6 milljörðum króna það sem af er ári. Það er einungis 17 prósent af nýjum útlánum þeirra til fyrirtækja á öllu síðasta ári og tæp níu prósent af þeim nýju útlánum sem veitt voru árið 2018, þegar eftirhrunsmet var sett í útlánum banka til atvinnufyrirtækja.
Þetta má lesa úr nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um íslenska bankakerfið.
Þar af voru 16,2 milljarðar króna lánaðir út í mars og 12,5 milljarðar króna í ágúst. Í fimm af níu fyrstu mánuðum ársins voru ný útlán hins vegar neikvæð.
Mikil og snöggur samdráttur í nýjum útlánum
Mikill vöxtur var í útlánum innlánsstofnana landsins á uppgangstímum síðustu ára. Um er að ræða, að uppistöðu, útlán sem Landsbankinn, Íslandsbanki, Arion banki og Kvika banki veita.
Árið 2013 voru ný veitt útlán til atvinnufyrirtækja 79,2 milljarðar króna. Ári síðar voru þeir 30 prósent meiri og á árinu 2015 jukust þau um 52 prósent. Ári síðar var heildarumfang nýrra útlána komið í 196,5 milljarða króna og hélst á því róli út árið 2018, þegar það toppaði í 208,7 milljörðum króna.
Síðan þá hefur verið umtalsverður samdráttur í nýjum útlánum. Í fyrra voru þau 107,8 milljarðar króna og nánast helminguðust á milli ára.
Vaxtalækkanir skila sér ekki til fyrirtækja
Seðlabanki Íslands hefur gripið til ýmissa aðgerða vegna yfirstandandi ástands sem ætti að nýtast bönkum og viðskiptavinum þeirra. Sveiflujöfnunarauki var afnumin sem losar verulega um það eigið fé sem bankarnir þurfa að halda á og stýrivextir voru lækkaðir úr 4,5 prósentum niður í eitt prósent á þrettán mánuðum, sem átti að skila miklu betri kjörum fyrir viðskiptavini banka.
Seðlabankinn sagði í Fjármálastöðugleikariti sínu sem kom út í júní að vaxtalækkunarferlið hafi hins vegar „ekki skilað sér alveg eins vel á innláns- og útlánsvexti KMB [kerfislega mikilvægir bankar] og sérstaklega hafa vextir nýrra útlána til fyrirtækja lítið lækkað.“
Hættan á virðisrýrnun og gjaldþrotum fer vaxandi
Fjallað var áfram um þessa þróun í nýjasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands, sem kom út í lok síðasta mánaðar. Þar segir að samdráttur í innlendum skuldum fyrirtækja bendi til þess að aðgengi fyrirtækja að fjármagni sé hugsanlega torveldara en áður, fyrst og fremst vegna aukinnar áhættu sem endurspeglast í hækkandi vaxtaálagi fyrirtækjaútlána bankanna. „Efnahagssamdrátturinn og aukin óvissa vegna farsóttarinnar hefur einnig dregið verulega úr eftirspurn eftir lánum þar sem samhliða dregur bæði úr áhættusækni fyrirtækja og framboði á arðbærum fjárfestingartækifærum.“
Seðlabankinn telur að skuldir fyrirtækja sem nýta sér lánaúrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækja muni vaxa næstu mánuði. „Mörg fyrirtæki hafa orðið fyrir miklum tekjusamdrætti og munu fara skuldsettari inn í þann efnahagsbata sem vænta má þegar farsóttin verður um garð gengin. Áhætta fyrirtækja vegna vaxtabreytinga og/eða tekjufalls eykst með aukinni skuldsetningu. Lágt vaxtastig styður þó við skuldsett fyrirtæki að öðru óbreyttu og eykur sjálfbærni skuldsetningar.“
Versnandi útlánagæði lánastofnana endurspeglast hins vegar í breyttu áhættumati og vaxandi virðisrýrnun á öðrum ársfjórðungi. Enn sem komið er hefur aðeins lítill hluti útlána kerfislega mikilvægra banka til fyrirtækja verið færður á stig 3 samkvæmt IFRS-9-reikningsskilastaðlinum, en viðbúið sé að það breytist næstu misseri enda hafi orðið tvöföldun á kröfuvirði útlána á stigi 2 og virðisrýrnun þeirra fimmfaldast. „Hættan á enn frekari virðisrýrnun og fjölgun gjaldþrota fer vaxandi.“