Zephyr Iceland fyrirhugar að reisa vindmyllugarð á Mosfellsheiði innan sveitarfélaganna Grímsnes- og Grafningshrepps og Ölfuss. Landið er þjóðlenda í eigu ríkisins. Um 30 vindmyllur, 150-20 metrar á hæð, yrðu reistar og heildarafl garðsins, sem gerður yrði í áföngum, gæti orðið um 200 MW.
Í tillögu að matsáætlun vegna verkefnisins, sem lögð var nýverið fram til kynningar, segir að með vindorkugarði á Mosfellsheiði sé „m.a. verið að bregðast við aukinni raforkuþörf á Íslandi“. Hin fyrirhugaða framkvæmd er af þeirri stærðargráðu að hún þarf lögum samkvæmt að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum og er tillagan sem nú er í kynningu hluti af því ferli. Framkvæmdaaðili telur hins vegar óljóst hvort að verkefnið þurfi að fara í gegnum ferli rammaáætlunar þar sem skiptar skoðanir séu um hvort að vindorka falli undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun. Engu að síður hafi Zephyr skilað hugmynd að framkvæmdinni til Orkustofnunar og að óbreyttu fer hún til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar. Fjölmargar hugmyndir að vindorkuverum um allt land hafa borist verkefnisstjórninni.
Í tillögu Zephyr að matsáætlun segir að Mosfellsheiði sé „talin vera tilvalinn staður fyrir vindorkugarð“. Á svæðinu séu hagstæð vindskilyrði, tiltölulega einfalt sé að tengjast raforkuflutningskerfinu, aðgengi að svæðinu sé með besta móti og tekið fram að svæðið einkennist nú þegar af orkumannvirkjum í formi hitaveitulagnar og háspennulína. Þá séu nokkrar stærstu jarðvarmavirkjanir landsins í næsta nágrenni.
Hið fyrirhugaða framkvæmdasvæði er í 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Vindafar hefur verið metið út frá sögulegum gögnum frá næstu veðurstöðvum Veðurstofunnar en til að staðfesta áætlaðan vind verða gerðar staðbundnar mælingar og hafa leyfi fengist fyrir uppsetningu mastra með mælitækjum á svæðinu.
Landnotkun á svæðinu er skilgreind sem „óbyggt svæði“ og því er ljóst að ef setja á þar upp vindmyllugarð þyrfti að breyta á skipulagsáætlununum beggja sveitarfélaga í þá veru að afmarka fyrirhugað virkjunarsvæði sem „iðnaðarsvæði“.
Vindmyllurnar myndu hafa bein áhrif á svæðin sem fara undir myllurnar sjálfar, á vegi, jarðstrengi, athafnasvæði verktaka og safnstöð raforku innan svæðis. Leggja þyrfti malarveg að hverri myllu og jarðstreng eða loftlínu um tíu kílómetra leið.
Í fullbyggðum garði yrðu um 30 vindmyllur, hver 150-200 metrar á hæð. Nokkur fjöll sjást frá framkvæmdasvæðinu og telur framkvæmdaaðili að þau kæmu til með að takmarka sýn inn á svæðið frá byggð. Er þar helst að nefna Hengil í suðaustri og Esju í norðvestri. Einnig myndi Grímmansfell í Mosfellsbæ skyggja á vindmyllurnar. Engu að síður myndi hluti af vindmyllunum sjást úr fjarlægð, bæði frá höfuðborgarsvæðinu og frá þjóðgarðinum á Þingvöllum.
Meðal þess sem framkvæmdaaðili hyggst gera er að fá fuglafræðing til að annast athuganir á fuglalífi á svæðinu. Í tillögu að matsáætlun stendur að svæðið sé í dag ekki flokkað sem mikilvægt fuglasvæði af Náttúrufræðistofnun Íslands og því sé ekki gert ráð fyrir ratsjármælingum til að kortleggja fuglalífið. Komi hins vegar í ljós að um svæðið fari margir farfuglar með hátt verndargildi kunni þetta að verða endurskoðað.
Með kynningu á tillögu að matsáætlun er verið að kalla eftir ábendingum um hvað fjalla skuli um í mati á umhverfisáhrifum verkefnisins. Tillagan var til almennrar kynningar í tvær vikur og rann frestur til athugasemda út um miðjan október. Þegar brugðist hefur verið við athugasemdum sem bárust verður endanleg tillaga að matsáætlun send Skipulagsstofnun til ákvörðunar.