Það er ekki á hverjum degi sem hafstraumar eru uppgötvaðir. En slíkt gerðist nýlega og um það er fjallað í grein sem birtist í vísindatímaritinu Nature Communications í gær.
Málið hefur því vakið mikla athygli, m.a. í heimalandi vísindamannanna, Noregi. „Við höfum sett nýjan hafstraum á kortið. Svo einfalt er það,“ segir aðalhöfundur rannsóknarinnar, Stefanie Semper, doktorsnemi í loftslagsfræðum við Háskólann í Bergen, við norska ríkissjónvarpið.
Löngu er orðið ljóst að hafstraumar hafa gríðarleg áhrif á loftslag jarðar. Allir þekkja Golfstrauminn sem flytur hlýjan sjó norður á bóginn, í Íslandshaf, Noregshaf og Grænlandshaf. Hann gerir það að verkum að loftslag á okkar breiddargráðum er hlýrra en ella og svæðið því byggilegt mönnum.
Hinn nýuppgötvaði hafstraumur tengist einmitt Golfstraumnum. Hlýi sjórinn sem Golfstraumurinn flytur kólnar á ferðalagi sínu, þyngist þar með og sekkur og flyst aftur suður þar sem hann hlýnar á ný. Þetta ferli myndar hringrás. Nýfundni straumurinn flytur sjó um gljúfur á miklu dýpi þessarar hringrásar frá Íslandi til Færeyja. Vísindamenn hafa svo einnig fundið út að sjórinn sem straumurinn flytur kemur úr Grænlandshafi. Það gefur mikilvægar upplýsingar um loftslagið og hvernig það gæti þróast. Þegar breytingar verða á sjónum við Grænland vegna loftslagsbreytinga sem þegar eru farnar að eiga sér stað gæti það haft áhrif á hringrásina í Norður-Atlantshafi.
Eitt af því sem vísindamenn hafa áhyggjur af er að hægt gæti á hafstraumunum í framtíðinni vegna hitabreytinga. Þá mun Golfstraumurinn kólna og loftslag á áhrifasvæðum hans sömuleiðis. Semper segir í samtali við NRK að til að spá fyrir um þróun loftlags á jörðinni verði að taka hafstraumana með inn í myndina. „Ég held að við viljum getað spáð fyrir um hvernig framtíðin mun líta út og þess vegna verðum við að vita meira um hafstraumana.“
Hún bendir á að enn sé þó margt á huldu varðandi hafið og því sé mikil þörf á frekari rannsóknum.