Alls eru 14.992 nemendur skráðir í Háskóla Íslands, en þeim hefur fjölgað um tvö þúsund á einu ári og hafa ekki verið jafnmargir frá stofnun skólans árið 1911. Nemendafjöldi skólans hefur tvöfaldast frá síðustu aldamótum.
Þetta kemur fram í nýuppfærðum tölum Háskóla Íslands um skráða nemendur. Samkvæmt þeim var tæpur þriðjungur af skráðum nemendum háskólans nýnemar, eða um 4.396. Í grunnnámi voru alls 9.396 nemendur, en 3.796 nemendur í voru skráðir í framhaldsnám. Af þeim voru 599 nemendur í doktorsnámi. Nemendafjöldinn hefur aukist um 15 prósent á einu ári, en á sama tíma í fyrra voru 13.092 nemendur skráðir í skólann.
Fjölgaði í hruninu
Sjá má fjölda nemenda í HÍ í októbermánuði á síðustu árum á mynd hér að neðan, en samkvæmt henni mátti sjá mikla fjölgun í skráðum nemendum í kreppunni í kjölfar bankahrunsins árið 2008.
Samhliða batnandi efnahagsástandi og minnkandi atvinnuleysi fór skráðum nemendum svo að fækka alveg til ársins 2017, þegar þeir voru 12.296. Á síðustu þremur árum hefur þeim svo farið fjölgandi aftur, en tveimur árum seinna voru þeir orðnir tæplega þúsund fleiri. Á síðustu tólf mánuðum hefur þeim hins vegar fjölgað um tvö þúsund.
Fjöldi skráðra nemenda í HÍ hefur rúmlega tvöfaldast frá aldamótunum, en árið 2000 voru þeir rétt rúmlega sjö þúsund talsins. Meðalfjöldi þeirra á árunum 2000 til 2008 voru litlu meiri, eða um 8.500