Enn sem komið er hefur enginn flóttamaður verið fluttir til Íslands af þeim fimmtán aukalega sem eiga að koma á þessu ári en ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 25. september síðastliðinn að Ísland tæki á móti flóttafólki frá Lesbos á Grikklandi, með áherslu á sýrlenskar fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Fram kom í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að fjölskyldurnar hefðu áður búið í flóttamannabúðunum Moria sem eyðilögðust í eldsvoða fyrr í mánuðinum.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans en í því segir að það komi í hlut grískra stjórnvalda ásamt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) að koma með tillögur um hvaða einstaklingar séu í mestri þörf á að flytjast á milli landa.
Unnið sé í samstarfi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnun Sameinuðu þjóðanna (IOM) og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Evrópusambandið og grísk stjórnvöld varðandi flutning á fjölskyldum. „Flóttamannanefnd var falið að útfæra verkefnið og er unnið að því núna í samstarfi við fyrrnefnda samstarfsaðila,“ segir í svarinu.
Búast við því að allt að 15 manns bætist við
Í tilkynningu stjórnvalda frá því í september sagði að flóttafólkið frá Lesbos, sem yrði allt að 15 manns, myndi bætast í hóp þeirra 85 sem ríkisstjórnin hygðist taka á móti á þessu ári og væri það langfjölmennasta móttaka flóttafólks á einu ári hingað til lands.
„Flóttamannanefnd mun annast undirbúning á móttöku fjölskyldnanna og verður móttaka þeirra unnin í samvinnu við Evrópusambandið og grísk stjórnvöld. Evrópusambandið hafði áður sent frá sér ákall um nauðsyn á flutningi barna og barnafjölskyldna vegna bruna Moria flóttamannabúðanna. Þá mun Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna vera íslenskum stjórnvöldum innan handar varðandi það hvernig best verður staðið að því að koma fjölskyldunum til landsins,“ sagði í tilkynningunni.
Flóttamannanefnd heyrir undir félags- og barnamálaráðherra en í nefndinni sitja fulltrúar frá dómsmálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu. Þá hafa Rauði krossinn á Íslandi, Samband íslenskra sveitarfélaga og Útlendingastofnun áheyrnarfulltrúa í nefndinni.
Vildu bregðast við ákalli um að taka á móti fólki á flótta frá Lesbos
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á sínum tíma að ríkisstjórnin vildi bregðast við ákalli því sem borist hefði um að taka á móti fólki á flótta frá Lesbos. „Hér á landi hefur skapast umfangsmikil og dýrmæt þekking þegar kemur að móttöku sýrlenskra fjölskyldna og sú reynsla okkar kemur að góðum notum. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að taka á móti fleira flóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem lýst hefur ánægju með móttöku flóttafólks hér á landi.“
Á síðasta ári var tekið á móti 74 flóttamönnum á Íslandi, en fram kom fréttum í lok síðasta árs að íslensk stjórnvöld myndu bjóðast til að taka á móti 85 manns. Einkum væri um að ræða Sýrlendinga og hópa viðkvæmra flóttamanna vegna kynferðis eða fjölkylduaðstæðna frá Kenía. Árið 2021 er áætlað að taka við enn fleirum eða 100 flóttamönnum í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna en ekki liggur fyrir hvaðan þeir munu koma.