Margt gæti skýrt að miklu meira sé greitt fyrir síld í Noregi en hér

Verðlagsstofa skiptaverðs birti á dögunum samanburð á síldarverðum í Noregi og á Íslandi, sem sýndi að hráefnisverð síldar var að meðaltali 128 prósentum hærra í Noregi en hér á landi á árunum 2012-2019, á meðan að afurðaverðið var svipað.

Sjómenn hafa á undanförnum árum ítrekað kvartað til Verðlagsstofu skiptaverðs yfir því hve lágt hráefnaverðið á uppsjávartegundum er á Íslandi.
Sjómenn hafa á undanförnum árum ítrekað kvartað til Verðlagsstofu skiptaverðs yfir því hve lágt hráefnaverðið á uppsjávartegundum er á Íslandi.
Auglýsing

Sjómenn hafa lengi talið að pottur sé brotinn í verðlagsmálum á uppsjávartegundum hér á landi, að sögn Valmundar Valmundssonar, formanns Sjómannasambands Íslands. Nýlegur samanburður frá Verðlagsstofu skiptaverðs sýnir að meðalhráefnisverð norsk-íslenskrar síldar var að meðaltali 128 prósentum hærra í Noregi en á Íslandi á árunum 2012-2019.

Þessi mikli verðmunur segir þó ekki mikla sögu einn og sér. Ýmsir fyrirvarar eru settir fram af hálfu Verðlagsstofu um að ólíkir þættir kunni að leiða til mismunandi verðlagningar hráefnis og afurða á milli landa. Valmundur segir að það sé þó „eiginlega sláandi hvað það er lítill munur á afurðaverði út úr Noregi og Íslandi,“ í ljósi þess hve mikill munur er á hráefnisverði. 

Valmundur segir að það vanti frekari upplýsingar um það hvernig ágóðinn af veiðunum í Noregi skiptist á milli útgerða og vinnslna. Þar í landi þurfa útgerðir og vinnslur lögum samkvæmt að vera aðskildar einingar, allavega á pappírunum. Sjómannasambandið hefur reynt að kalla eftir upplýsingum um þetta að utan, en það hefur gengið erfiðlega, að sögn formannsins.

Auglýsing

Í verðsamanburði Verðlagsstofu sést að munurinn á hráefnisverði síldarinnar hefur lækkað á undanförnum árum og fór niður í 51 prósent í fyrra, en mesti munurinn var árið 2015 þegar hráefnisverðið var að meðaltali 186 prósentum hærra í Noregi en á Íslandi. 

Samanburður á hráefnisverði síldar óháð ráðstöfun frá 2012-2019. Mynd: Verðlagsstofa skiptaverðs

Valmundur segir að íslenskir sjómenn sjái margir hverjir ofsjónir yfir þeim mikla mun sem sé til staðar á milli Noregs og Íslands í hráefnisverði á síld, makríl og kolmunna, þegar þeir sjálfir búi við það að semja við útgerðirnar um verðin, sem síðan ráða því hversu hár hlutur þeirra er. Oft sé ekki um miklar eiginlegar samningaviðræður að ræða.

„Á meðan að kerfið er eins og það er hér þá þurfa kallarnir að standa í lappirnar og það getur verið erfitt fyrir einhverja eina áhöfn hér að segja: Við viljum nýjan samning,“ segir Valmundur. Sjómenn hafa á undanförnum árum ítrekað kvartað yfir því til Verðlagsstofu hve lágt hráefnaverðið er á Íslandi.

Slíkar umkvartanir og umræða sem skapast hefur um verð á uppsjávarfiski í samfélaginu eru ástæðurnar sem Verðlagsstofa segir að hafi verið fyrir því að stofnunin fór að skoða uppsjávarverð í Noregi sérstaklega og setja það í samhengi við innlent verð.

SFS kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis vegna samanburðar

Þann 21. ágúst 2019 birti Verðlagsstofa slíkan samanburð á makrílverði á vef sínum. Þar kom fram að á árunum 2012-2018 var greitt að meðaltali 227 prósent meira fyrir makríl til vinnslu í Noregi en á Íslandi. Í samanburðinum voru engar skýringar gefnar á því hvað gæti mögulega skýrt þennan mikla verðmun á aflanum. 

Samanburður á hráefnisverði makríls óháð ráðstöfun á árunum 2012-2018. Mynd: Verðlagsstofa skiptaverðs

Í kjölfarið upphófst töluverð umræða í samfélaginu um makrílverð og kallaði Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness eftir opinberri rannsókn á verðlagningu uppsjávarafla hjá fyrirtækjum sem væru með veiðar og vinnslu á sömu hendi. Jens Garðar Helgason formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi svaraði í samtali við RÚV og sagði að í raun væri Verðlagsstofa skiptaverðs að „bera saman epli og appelsínur,“ Norðmenn væru með allt aðra gæðavöru í höndunum en Íslendingar.

Aftur hófst umræða um makrílverðið síðan í desember í fyrra þegar Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar vakti máls á samanburði Verðlagsstofu í grein á Vísi og bar þungar sakir á útgerðarmenn. Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS svaraði Kára í grein í Fréttablaðinu skömmu síðar og sagði framsetningu forstjórans ekki standast skoðun.

Á einhverjum tímapunkti ákváðu SFS að kvarta undan þessum verðsamanburði Verðlagsstofu á makríl til umboðsmanns Alþingis, á þeim grunni að með því að bera íslenskt fiskverð saman við norskt hefði stofnunin farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að svo hefði ekki verið.

Umboðsmaður kom þó inn á það í bréfi sínu til Verðlagsstofu, sem stofnunin vísar til á vef sínum, að mikilvægt væri að lesendur verðsamanburðar væru meðvitaðir um að ólíkar forsendur kynnu að búa að baki verðmyndun erlendis. Auk þess væri mikilvægt að við birtingu upplýsinga að setja þær fram með skýrum hætti með viðeigandi skýringum.

Birta samanburð og nefna ótal þætti sem gætu verið að skekkja myndina

Í ljósi þessa segist Verðlagsstofa telja tilefni til þess að halda áfram að birta verðupplýsingar frá öðrum löndum, í samhengi við innlent verð, „þannig að það gagnist útvegsmönnum, sjómönnum og fiskkaupendum sem best“ og í hinum nýlega birta síldarsamanburði eru raktir margir ólíkir þættir sem gætu leitt til mismunandi verðlagningar milli landa, ólíkt því sem var í makrílsamanburðinum í fyrra.

Verðlagsstofa tekur þó enga afstöðu til þess hvaða ástæður eru fyrir þessum mismuni á íslenskum hráefnissverðum og norskum, en nefnir að dæmi hafi verið tekin um að uppbygging fiskveiðistjórnunarkerfis, staða gjaldmiðils, millifærslur í formi niðurgreiðslu og gjaldtöku hins opinbera, gæði hráefnis og markaðsaðgangur geti haft áhrif. 

„Einnig er líklegt að mismunandi samningar útgerða og sjómanna, ásamt mismun á laga- og regluverki samanburðarþjóða hafi þýðingu í þessu sambandi, til dæmis er varðar sölufyrirkomulag hráefnis og samþættingu veiða og vinnslu,“ segir í samanburði Verðlagsstofu, sem vekur síðan sérstaklega athygli á að ekki er um að ræða samanburð á launum sjómanna. 

En eftir standa íslenskir sjómenn og aðrir sem fylgjast með og eru litlu nær, rétt eins og eftir að rætt var um makrílverðin í fyrra. Þá sagði Unnsteinn Þráinsson formaður Félags makrílveiðimanna í samtali við Fiskifréttir að hann vildi það væri farið í saumana á þessum málum.

„Þjóðin á heimtingu á því að vita hvort pottur sé brotinn. Það er líka slæmt fyrir sjávarútveginn að liggja undir ásökunum sem á endanum eru ef til vill algjörlega tilhæfulausar. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa útskýrt málið út frá sínum bæjardyrum séð en það hefur ekki dugað til þess að sannfæra þjóðina. Við þurfum bara að sjá tölur á blaði sem sýnir hvernig málið er vaxið,“ sagði Unnsteinn.

Formaður Sjómannasambandsins er á sama máli nú. „Það er kominn tími til að menn grafi ofan í þessi mál og sjái hvað er í gangi,“ segir Valmundur, í samtali við Kjarnann.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir
Er vegan börnum mismunað í skólum á Íslandi?
Kjarninn 17. maí 2021
Katrín mun ræða málefni Ísraels og Palestínu við Blinken og Lavrov í vikunni
Málefni Ísraels og Palestínu voru rædd á þingi í dag. Þingmenn Pírata og Viðreisnar kölluðu eftir því að stjórnvöld tækju af skarið og fordæmdu aðgerðir Ísraela í stað þess að bíða eftir öðrum þjóðum. Forsætisráðherra mun tala fyrir friðsamlegri lausn.
Kjarninn 17. maí 2021
Fjölskylda á flótta hefst við úti á götu í Aþenu, höfuðborg Grikklands.
Útlendingastofnun setur hælisleitendum afarkosti: Covid-próf eða missa framfærslu
Útlendingastofnun er farin að setja fólki sem synjað er um vernd þá afarkosti að gangast undir COVID-próf ellegar missa framfærslu og jafnvel húsnæði. Í morgun var sýrlenskum hælisleitanda gert að pakka saman. „Hvar á hann að sofa í nótt?“
Kjarninn 17. maí 2021
Eurovision-hópurinn fékk undanþágu og fór fram fyrir í bólusetningu
RÚV fór fram á það við sóttvarnaryfirvöld að hópurinn sem opinbera fjölmiðlafyrirtækið sendi til Hollands til að taka þátt í, og fjalla um, Eurovision, myndi fá bólusetningu áður en þau færu. Við því var orðið.
Kjarninn 17. maí 2021
ÁTVR undirbýr nú lögbannsbeiðni á starfsemi vefverslana með áfengi.
ÁTVR ætlar að fara fram á lögbann á vefverslanir og undirbýr lögreglukæru
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins telur nauðsynlegt að fá úr því skorið hjá dómstólum hvort innlendar vefverslanir sem selja áfengi milliliðalaust til neytenda séu að starfa löglega, eins og rekstraraðilar þeirra vilja meina.
Kjarninn 17. maí 2021
Jónas Þór Þorvaldsson er framkvæmdastjóri Kaldalóns.
Kaldalón ætlar að skrá sig á aðallista Kauphallar Íslands árið 2022
Kaldalón hefur selt fasteignaþróunarverkefni í Vogabyggð og keypt tekjuberandi eignir í staðinn. Arion banki ætlar að sölutryggja fimm milljarða króna í nýtt hlutafé í tengslum við skráningu Kaldalóns á markað.
Kjarninn 17. maí 2021
Tækifæri í rafmyntaiðnaði til staðar meðan rafmyntir halda velli að mati ráðherra
Líklega mun hið opinbera nýta sér bálkakeðjutækni þegar fram líða stundir samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn um rafmyntir. Ekki er þó enn útlit fyrir að rafmyntir taki við af hefðbundinni greiðslumiðlun í bráð.
Kjarninn 17. maí 2021
Viðar Hjartarson
Glæpur og refsing – Hugleiðingar vegna nýfallins dóms
Kjarninn 17. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent