Rúmlega helmingur landsmanna, eða 53,5 prósent, er hlynntur því að „nýja stjórnarskráin“ sem Stjórnlagaráð lagði fram verði lögð til grundvallar nýrri stjórnarskrá Íslands, en 21,3 prósent eru því andvíg, samkvæmt nýrri skoðanakönnun frá Maskínu sem birt var í dag.
Rúmur fjórðungur aðspurðra, eða 25,2 prósent, tók ekki afstöðu í aðra hvora áttina. Fram kemur í umfjöllun á vef Maskínu að marktækt hærra hlutfall kvenna en karla hafi verið hlynnt, en þó meirihluti beggja kynja.
Andstaða við að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá lýðveldisins óx með eftir því sem heimilistekjur svarenda hækkuðu. Um 65 prósent þeirra sem hafa lægstar tekjur sögðust hlynnt, en einungis 43-44 prósent þeirra sem hafa milljón eða meira í heimilistekjur. Það var eini tekjuhópurinn þar sem ekki var meirihluti hlynntur.
Einungis tæp 16 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks hlynnt
Mjög mikill munur er á afstöðu fólks eftir stjórnmálaskoðunum, samkvæmt könnuninni. Þannig eru um 85-88 prósent kjósenda Pírata og Samfylkingar hlynnt, næstum 73 prósent kjósenda Flokks fólksins, um 64 til 66 prósent kjósenda Viðreisnar og Vinstri grænna og um þriðjungur kjósenda Framsóknarflokksins og Miðflokksins, en einungis tæplega 16 prósenta kjósenda Sjálfstæðisflokksins.
Af þeim sem styðja ríkisstjórnina vilja 38-39 prósent leggja tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá en næstum 74 prósent þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina.
Mikilvægt?
Tæplega 63 prósent svarenda í könnun Maskínu segja mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá en tæplega 20 prósent segja það ekki mikilvægt. Það er mjög svipað hlutfall og í nýlegri könnun MMR þar sem fólk var spurt út í það hversu mikilvægt því þætti að fá nýja stjórnarskrá.
Konum finnst mikilvægara en körlum að fá nýja stjórnarskrá, þótt meirihluta beggja kynja þyki það mikilvægt, samkvæmt könnuninni. Eftir því sem tekjur hækka finnst svarendum lítilvægara að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá.
Maskína segir að „nákvæmlega sama mynstur“ hafi verið í viðhorfi til mikilvægis nýrrar stjórnarskrár og spurningarinnar um „nýju stjórnarskrá“ Stjórnlagaráðs þegar niðurstöður voru skoðaðar eftir stjórnmálaskoðun svarenda.
Einungis fimmtungi kjósenda Sjálfstæðisflokksins finnst mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá en 82-97 prósent kjósenda Flokks fólksins, Samfylkingar og Pírata. Einnig er mikill munur eftir því hvort svarendur styðja ríkisstjórnina, þannig finnst tæplega helmingi þeirra sem styðja ríkisstjórnina mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá en slétt 81% þeirra sem styðja hana ekki.
Á bilinu 81-82 prósent þeirra sem finnst mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá fyrir Ísland eru hlynnt því að leggja tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar. Að sama skapi eru um 82 prósent þeirra sem telja það lítilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá andvígir því að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar.
Um könnunina
Svarendur í könnuninni voru 838 talsins og koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur voru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 19.-27. október 2020.