Tekjufallsstyrkir sem ríkissjóður ætlar að greiða út til einyrkja og litla rekstraraðila í ferðaþjónustu sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi vegna kórónuveirufaraldursins munu kosta allt að 3,5 milljarða króna samkvæmt mati sem ráðgjafafyrirtækið KPMG vann fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Tekjufallsstyrkjum er meðal annars ætlað að styðja minni rekstraraðila sem starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri. Þetta er því ekki tæmandi kostnaður vegna þeirra heldur einungis sá sem mögulega mun falla til vegna greiðslna til aðila í ferðaþjónustu.
Styrkirnir hafa þegar verið samþykktir í ríkisstjórn og munu jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en geta þó ekki orðið hærri en 400 þúsund krónur fyrir hvert stöðugildi á mánuði á tímabilinu. Verði frumvarpið að lögum þurfa rekstraraðilar að uppfylla eftirtalin skilyrði:
- Að hafa orðið fyrir minnst 50 prósent tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020.
- Að hámarki þrír launamenn starfi hjá rekstraraðila.
- Umsækjendur þurfa að auki að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að tekjufallstyrkir til ferðaþjónustu geti orðið allt að 3,5 milljarðar króna ef öll fyrirtæki nýta sér þá. Upphæðin miðast við að öll félög uppfylli skilyrðin um minnst 50 prósent tekjufall fyrir nýtingu úrræðisins. Þannig getur hámarksstyrkur til hvers fyrirtækis numið 1,2 milljónum króna á mánuði í þá sex mánuði sem gert er ráð fyrir að úrræðið gildi, eða alls 7,2 milljónum króna.
Tekjufallsstyrkjum er meðal annars ætlað að styðja minni rekstraraðila sem starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri.
80 prósent listamanna orðið fyrir tekjufalli
BHM greindi frá fyrr í mánuðinum að um 80 prósent svarenda í könnun sem félagið gerði nýlega meðal listamanna hefðu orðið fyrir tekjufalli vegna COVID-kreppunnar. Þeir munu líka geta sótt um tekjufallsstyrki líkt og minni aðilar og einyrkjar í ferðaþjónustu, eins og t.d. leiðsögumenn. Ekki liggur fyrir mat á hversu mikið það muni kosta ríkissjóð.
„Helmingur þeirra hefur horft upp á tekjur sínar minnka um meira en 50 prósent milli ára og tæplega fimmtungur um á bilinu 75 til 100 prósent, sem jafna má til algers tekjuhruns. Tekjur meirihluta svarenda eru nú undir framfærsluviðmiði og um helmingur þeirra segist eiga erfitt með að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum. Ýmislegt bendir þó til þess að núverandi bótaúrræði séu óaðgengileg og nýtist illa þessum hópi. Mörg ríki hafa valið að styðja fjárhagslega við bakið á listamönnum með sértækum aðgerðum en Ísland er ekki þar á meðal,“ sagði í tilkynningu frá BHM fyrr í október.