Stjórnvöld sjá fyrir sér að hugsanlega verði hægt að færa öll verkefni Neytendastofu til annarra stofnana á næsta ári og leggja Neytendastofu niður í kjölfarið, með mögulegum sparnaði fyrir ríkissjóð, samkvæmt því sem fram kemur í drögum að nýju stjórnarfrumvarpi sem birt voru í dag á samráðsgátt stjórnvalda.
Í því stjórnarfrumvarpi eru gerðar tillögur um að breyta lögum þannig að stjórnsýsluverkefni á sviði vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði verði færð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og stjórnsýsluverkefni á sviði rafrænnar auðkenningar og traustþjónustu verði færð til Póst- og fjarskiptastofnunar.
Samkvæmt frumvarpinu mun Neytendastofa starfa enn um sinn í breyttri mynd ef það verður að lögum og muni þá „nær eingöngu sinna eftirlitsverkefnum á sviði neytendaréttar.“ Unnið sé að hugsanlegri tilfærslu þeirra verkefna til annarrar stofnunar árið 2021 og niðurlagningu Neytendastofu „með mögulegum sparnaði fyrir ríkissjóð.“
Hefur starfað frá því árið 2005
Neytendastofa varð til árið 2005 og tók þá við verkefnum frá Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofu. Stofnunin er ein þeirra eftirlitsstofnana sem hafa eftirlit með viðskiptalífinu og lögum frá Alþingi sem sett eru vegna öryggis og réttinda neytenda.
Sem dæmi um verkefni sem stofnunin sinnir má nefna eftirlit með því hvort þær andlitsgrímur sem til sölu hafa verið hérlendis síðan faraldur COVID-19 fór að geisa séu með CE-merkingar. Neytendastofa heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
Samhliða stofnun Neytendastofu var embætti talsmanns neytenda stofnað, en það sérstaka embætti var lagt niður árið 2013.
237,4 milljónir úr ríkissjóði
Samkvæmt fjárlögum ársins 2020 fær Neytendastofa 237,4 milljónir króna úr ríkissjóði og hefur að auki 51,5 milljónir króna í sértekjur. Samkvæmt frumvarpsdrögunum í samráðsgáttinni er ráðgert er að um 130 milljón króna brúttóframlag fylgi þeim verkefnum sem flytjast frá Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna launakostnaðar, húsaleigu og annars kostnaðar. Þar af er gert er ráð fyrir að 51,5 milljóna króna sértekjurnar flytjist með til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Jafnframt er gert ráð fyrir að 21 milljón króna fylgi verkefnum sem flytjast frá Neytendastofu til Póst- og fjarskiptastofnunar, sem verði endurskoðað í lok árs 2021 í samræmi við lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.
Ýmsar stofnanir hafa eftirlit með neytendatengdum málum
Þrátt fyrir að Neytendastofa sé eina ríkisstofnunin sem hafi orðið neytandi í nafni sínu eru fjölmargar ríkisstofnanir sem sjá um eftirlit með neytendatengdum málum með beinum eða óbeinum hætti.
Má þar til dæmis nefna Fjármálaeftirlitið, Póst- og fjarskiptastofnun og Samgöngustofu. Aðrar almennar eftirlitsstofnanir, svo sem Lyfjastofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun sinna eftirliti með neytendatengdum vörum.