Alls greindust 42 ný tilfelli af COVID-19 hér á landi í gær. Af þeim sem greindust voru 52 prósent í sóttkví. Nú eru 1.005 í einangrun vegna sjúkdómsins en í sóttkví eru 1.730. 62 einstaklingar liggja á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins. Þar af tveir á gjörgæslu og einn í öndunarvél.
Frá upphafi faraldursins hafa 4.719 greinst með kórónuveiruna á Íslandi. Tölulegar upplýsingar um COVID-19 á Íslandi má skoða á covid.is.
Einn einstaklingur lést á Landspítala síðasta sólarhring vegna COVID-19, samkvæmt tilkynningu á vef spítalans í dag.
Sólarhringinn þar á undan lést einnig einn einstaklingur vegna COVID-19 og eru andlátin því tvö á tveimur dögum.
Þrír hafa nú látist frá því að sjúkdómurinn fór að breiðast frekar út í samfélaginu á haustmánuðum og 13 manns alls frá því að fyrsta tilfelli COVID-19 greindist hér á landi í lok febrúar.
Í tilkynningu frá Landspítalanum sem send var til fjölmiðla í dag kemur fram að „eins og búast mátti við greinast enn smit hjá starfsfólki og sjúklingum sem voru útsettir á Landakoti fyrir COVID-19. Ekkert nýtt smit hefur greinst utan hins skilgreinda útsetta hóps starfsmanna og sjúklinga.“