Bandaríska sendiráðið á Íslandi hefur birt stöðuuppfærslu á Facebook þar sem það ásakar Fréttablaðið ábyrgðarlausa blaðamennsku og falsfréttaflutning vegna fréttar sem birtist á netútgáfu blaðsins í gær.
Í fréttinni var sagt að Fréttablaðið hefði heimildir fyrir því að starfsmaður í sendiráðinu hefði greinst með COVID-19 smit í síðustu viku, en til stendur að bandaríska sendiráðið flytji í nýtt húsnæði sitt við Engjateig um helgina.
Í frétt miðilsins var rætt við Kristinn Gilsdorf, upplýsingafulltrúi sendiráðsins, sem sagðist ekki kannast við málið.
Í íslenska hluta færslunnar, sem er einnig birt á ensku, segir: „Ameríka náði að vígja nýja sendiráðið án COVID-19 smits. Skömmin er núna hjá Fréttablaðinu fyrir ábyrgðarlausan blaðamennska. Löngu eftir vígslu kom upp eitt tilfelli vegna smits í íslenskum skóla. Smittíðnin á Íslandi er með því hæsta í Evrópu. Ömurlegt að Fals-Fréttablaðið væru svo ófagmannlegt og sýnir virðingarleysi með því að nota COVID-19 í pólitískum tilgangi. Bandaríska sendiráðið hefur alltaf verið og er öruggasta athvarfið frá COVID-19 í Reykjavík.“
Bandaríski sendiherrann var til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveik í sumar þar sem greint var frá því að hann vildi fá vopnaða lífverði til að fylgja sér hérlendis. Hann teldi lífi sínu ógnað. Samkvæmt heimildum Kveiks var Gunter auk þess sannfærður um að margir starfsmenn sendiráðsins væru hluti „djúpríkisins“, hópi sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vísar oft til og segir vinna gegn sér og stefnu sinni.
Gunter, sem er húðlæknir að mennt, kom til starfa sem sendiherra hérlendis í fyrra. Hann var skipaður af Trump og er dyggur stuðningsmaður forsetans, sem sækist eftir endurkjöri í forsetakosningunum sem fara fram á þriðjudag.
Þá vakti stöðuuppfærsla sendiherrans á Twitter í júlí líka mikla athygli. Þar sagði hann að Íslendingar og Bandaríkjamenn gætu sigrast á „ósýnilegu Kínaveirunni“ saman og átti þar við kórónuveiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.