Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu og hafa hann og stjórn félagsins gengið frá samkomulagi um starfslokin. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti.
„Birgir hóf störf hjá Póstinum í byrjun júní 2019 og hefur frá þeim tíma ásamt stjórn og nýju stjórnendateymi, stýrt félaginu í gegnum mikið og farsælt umbreytingaferli. Tekist hefur að treysta rekstrargrundvöll fyrirtækisins og skapa því sterkari stöðu til framtíðar. Þá hefur þjónusta Póstsins verið bætt og aukin,“ segir í tilkynningu Íslandspósts um starfslokin. Þar kemur einnig fram að Birgir muni gegna starfi forstjóra þar til eftirmaður hans hefur verið ráðinn.
Segir ekki finna sig þegar pólitískari sjónarmið séu farin að skipta meira máli
Haft er eftir Birgi í fréttatilkynningu Póstsins að mikill viðsnúningur hafi orðið í rekstri Íslandspósts og að það hafi verið sannur heiður að fá að takast á við verkefnið með öflugum hópi starfsmanna um land allt.
„Næstu skref hjá mér eru óráðin en ég fer frá borði fullur þakklætis fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni og ég hlakka mikið til að sjá Póstinn blómstra sem aldrei fyrr í höndunum á öllu því góða fólki sem þar starfar,“ er sömuleiðis haft eftir Birgi í tilkynningu Íslandspósts.
Hann tjáir sig einnig um brotthvarf sitt á LinkedIn-síðu sinni og segist þar hafa notið verkefnisins, stærstu rekstrarmálin séu leyst og nú séu „önnur sjónarmið og svo það sé bara sagt hrein út, pólitískari sjónarmið“ farin að skipta meira máli.
„Þetta er kannski eðlilegt í ljósi eignarhaldsins. Ég sem rekstrarmaður finn mig hins vegar ekki alveg nógu vel í slíkri stöðu og tel mig ekki hafa mikið að gefa í henni,“ segir Birgir á LinkedIn.
Fyrir hönd stjórnar Íslandspósts þakkar Bjarni Jónsson stjórnarformaður Birgi fyrir góð störf og haft er eftir honum að margt hafi áunnist í rekstrinum frá því að Birgir tók við starfinu.
„Birgir hefur verið öflugur starfsmaður sem hefur leitt umbreytingaferli hjá fyrirtækinu, skapað góða liðsheild og starfsanda. Stjórn félagsins þakkar Birgi fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Framundan eru krefjandi verkefni í stefnumótun og við að bæta enn frekar þjónustu hjá Íslandspósti,“ segir stjórnarformaðurinn í tilkynningu.
Tók við erfiðu búi síðasta sumar
Birgir hóf störf á tímapunkti þegar Pósturinn um það leyti sem fyrirtækið var að hefja miklar hagræðingaraðgerðir vegna bágrar rekstrarstöðu, en í september 2018 leitaði Íslandspóstur á náðir ríkisins og fékk 500 milljónir króna að láni til að bregðast við lausafjárskorti eftir að Landsbankinn hafði lokað á frekari lánveitingar til opinbera hlutafélagsins. Nokkrum mánuðum síðar, í desember 2019, samþykkti Alþingi að lána fyrirtækinu allt að milljarð til viðbótar.
Birgir tók við starfi forstjóra af Ingimundi Sigurpálssyni, sem hafði verið forstjóri Íslandspósts í 14 ár þegar hann sagði starfi sínu lausu í mars árið 2015. Birgir leiddi ýmis hagræðingarverkefni hjá Póstinum og fækkaði stöðugildum hjá fyrirtækinu um 14 prósent á síðasta ári, niður í 721, og hefur þeim fækkað enn frekar á þessu ári.
Stjórnendum var sömuleiðis fækkað um 30 prósent í fyrra og einnig voru höfuðstöðvar Póstsins fluttar frá Stórhöfða í skrifstofuhúsnæði í Höfðabakka, í minna og ódýrara húsnæði, svo eitthvað sé nefnt.
Þessar breytingar og fleiri segir Birgir að hafi umbreytt félaginu, í færslu sinni á LinkedIn. „Fyrirtækið var nálægt greiðsluþroti í byrjun síðasta árs en er nú eitt arðsamasta póstfyrirtæki á norðulöndum og þar með mjög verðmætt fyrir eiganda sinn sem erum við öll, fólkið í landinu. Þessi viðsnúningur kemur ekki til vegna gjaldskrárhækkana, eins og margir halda, enda hafa tekjur fyrirtækisins dregist mikið saman á sama tíma,“ skrifar Birgir.
Tap fyrirtækisins í fyrra var þó 510 milljónir króna og kom fram að þetta tap mætti að mestu skýra með kostnaði við endurskipulagninguna, sem færður var til bókar í fyrra. Sá hluti var 225,1 milljón króna.
Vaxtaberandi skuldir Íslandspósts voru 1.953 milljónir króna um síðustu áramót og höfðu lækkað úr 2.761 milljón króna ári áður. Handbært fé frá rekstri var 562,2 milljónir króna.