Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur áform um að leggja fram frumvarp um ný heildarlög um gjaldeyrismál. Drög að frumvarpinu hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.
Á meðal þess sem þar kemur fram er að lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, og sett voru árið 2016, verða felld úr gildi. Þau lög settu sérstaka bindiskyldu á skuldabréfamarkað og hávaxtainnstæður í íslenskum krónum sem hafði það markmið að koma í veg fyrir að krónueignir í eigu erlendra sjóða myndu flæða út úr landinu eftir losun hafta. Bindingarhlutfallið var upphaflega 40 prósent en var lækkað niður í 20 prósent í nóvember 2018, og loks fært niður í 0 prósent í mars 2019.
Eftir það gátu aflandskrónueigendur losað um allar aflandskrónueignir sínar hérlendis, en fyrir stærstan hóp þeirra felur sú losun í sér kaup á erlendum gjaldeyri sem hægt er að flytja á erlendan bankareikning. Þeir aflandskrónueigendur sem vilja áfram fjárfesta hér á landi þurfa því að flytja gjaldeyri aftur til landsins og skipta í krónur til að fjárfesta á nýjan leik.
Seðlabankinn getur áfram sett höft
Til stendur að leggja frumvarpið fram í janúar næstkomandi. Tilgangur þess er, líkt og áður sagði, að setja ný heildarlög um gjaldeyrismál. Efni þess er að uppistöðu í samræmi við efni gildandi laga. Í samráðsgáttinni kemur fram að framsetningin hafi þó verið tekin til gagngerar endurskoðunar „með það að markmiði að lögin verði aðgengilegri og hugtakanotkun uppfærð til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og þá þróun sem hefur átt sér stað frá gildistöku núgildandi laga.“
Í frumvarpinu er lagt til að áréttuð verði meginreglan um að gjaldeyrisviðskipti, fjármagnshreyfingar á milli landa og greiðslur á milli landa skuli vera frjáls, nema annað leiði af lögum. „Gert er ráð fyrir að grípa megi til ráðstafana sem fela í sér undantekningar frá meginreglunni í þeim tilgangi að standa vörð um efnahagslegan stöðugleika eða fjármálastöðugleika. Í frumvarpinu er að finna ákvæði sem lýsa þeim ráðstöfunum sem Seðlabankinn getur gripið til í því skyni að fyrirbyggja óstöðugleika. Um er að ræða úrræði af tvennum toga: annars vegar fyrirbyggjandi stjórntæki á sviði þjóðhagsvarúðar og hins vegar verndunarráðstafanir (höft) við sérstakar aðstæður.“
Umsagnarfrestur þeirra sem vilja skila inn slíkum um drögin er til 13. nóvember.