Lárus Sigurður Lárusson lögmaður hefur beðist lausnar sem formaður Menntasjóðs námsmanna, vegna dóms sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í liðinni viku og varðaði störf hans fyrir þrotabú fasteignafélagsins Þóroddsstaða ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Lárus Sigurður sendi frá sér í dag.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Lárusi Sigurði hefði verið vikið úr starfi skiptastjóra þrotabús fasteignafélagsins Þórodds ehf. vegna brots á starfs- og trúnaðarskyldum sínum sem skiptastjóri. Úrskurður þessa efnis var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.
Ástæða brottvikningarinnar er framferði hans í tengslum við sölu á verðmætustu eign bússins, fasteigninni Þóroddsstöðum sem stendur við Skógarhlíð 22 í Reykjavík, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins.
Ósammála niðurstöðunni
Í tilkynningu Lárusar Sigurðar kemur fram að hann sé ósammála niðurstöðu dómsins og kanni nú forsendur áfrýjunar. „Hann telur mjög brýnt að deilumál vegna þrotabúsins hafi ekki áhrif á önnur störf sín, þ.m.t. vinnu hans fyrir Menntasjóð námsmanna,“ segir í tilkynningunni.
Hann hefur tilkynnt Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra þessa ákvörðun. „Menntasjóður námsmanna er afar mikilvæg stofnun sem gegnir grundvallarhlutverki í samfélaginu. Því er brýnt að friður ríki um stjórn og starfsemi Menntasjóðsins og það góða starf sem þar er unnið fái að halda áfram án óþarfa gagnrýni. Ég hef af þessum sökum beðist lausnar sem formaður Menntasjóðs, og einnig undan öðrum trúnaðarstörfum mínum,“ segir Lárus í tilkynningunni.
Lárus Sigurður var skipaður stjórnarformaður nýs Menntasjóðs námsmanna, sem kemur í stað Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN), í júlí síðastliðnum en mennta- og menningarmálaráðherra skipar í stjórn sjóðsins.
Situr í stjórn um heiðurslaun listamanna
Kjarninn fjallaði um skipunina á sínum tíma og greindi frá því að Lárus Sigurður hefði starfað hjá lögmannsstofunni Sævar Þór & Partners. Hann hefði áður starfað sem lögfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu í rúm fimm ár áður en hann fór að leggja stund á lögmennsku. Þar áður hefði hann verði lögfræðingur hjá Persónuvernd. Alls hefði Lárus Sigurður starfað sem lögfræðingur hjá ríkinu í meira en áratug.
Hann hafði enn fremur setið í stjórn LÍN frá 2018 og verið varaformaður stjórnarinnar. Lárus Sigurður situr einnig í stjórn um heiðurslaun listamanna og er varamaður í stjórn listamannalauna. Í þessar stjórnir var hann einnig tilnefndur eða skipaður í af Lilju Alfreðsdóttur.
Oddviti Framsóknar í Reykjavík norður árið 2017
Lárus Sigurður hefur lengi verið virkur í starfi Framsóknarflokksins. „Ég hef verið í Framsóknarflokknum í meira en 20 ár. Það liggur við að það hafi stundum verið feimnismál að vera í Framsóknarflokknum og oft verið mjög erfitt,“ sagði hann í viðtali við Vísi árið 2016.
Þá var Lárus í 2. sæti á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir alþingiskosningar. Ári seinna, er boðað var að nýju til kosninga, var Lárus Sigurður oddviti flokksins í kjördæminu og voru það því hann og Lilja Alfreðsdóttir sem fóru fyrir flokknum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur.