Pennsylvanía, Nevada, Georgía, Norður-Karólína og Arizona. Þetta eru ríkin fimm þar sem enn virðist einhver vafi leika um það hvort Joe Biden eða Donald Trump fengu fleiri atkvæði í kosningunum á þriðjudag.
Reyndar telja margir að Arizona hafi tvímælalaust fallið Biden í skaut, en ekki allir fjölmiðlar og talnarýnendur hafa þorað að segja til um það með vissu. Fox News reið á vaðið og lýsti yfir sigri Biden í ríkinu tiltölulega snemma og vakti með því reiði Trump og bandamanna hans, sem töldu Fox hafa hlaupið á sig og lýst yfir Biden sigri í ríkinu of snemma, Trump ætti enn möguleika.
Arnon Mishkin, aðaltölfræðingur Fox News, hefur þó varið mat sitt og sagt ómögulegt, miðað við þau gögn sem hans teymi hafi yfir að ráða, að Trump nái að klóra nægilega í bakkann með þeim atkvæðum sem seinast kæmu til talningar. AP-fréttastofan hefur sömuleiðis lýst yfir sigri Biden í ríkinu, sem Donald Trump hafði betur í gegn Hillary Clinton árið 2016.
Ekki virðist alveg bitið úr nálinni með það, en samkvæmt nýjustu birtu tölum frá Maricopa-sýslu, þar sem ríkishöfuðborgin Phoenix er staðsett, er Trump að saxa nægilega mikið á forskot Biden til þess að eiga möguleika á sigri í ríkinu, en hann þarf tæplega tvo þriðju hluta allra atkvæða sem ótalin eru til að hafa betur.
Það er þó ekkert víst að það haldi áfram og enn munar tæplega 70 þúsund atkvæðum. Það verður þó fróðlegt að sjá hvort það fari svo að Fox News og AP þurfi að draga yfirlýsingar sínar til baka, með skottið á milli lappanna.
Arizona-ríki skiptir þó litlu máli fyrir lokaútkomu kosninganna, ef Biden fær fleiri atkvæði í Pennsylvaníu, eins og margt bendir til. Þá fengi hann 20 kjörmenn og sama hvort honum eru gefnir 253 eða 264 kjörmenn í dag mun hann þá fara yfir töfratöluna 270, sem tryggir sigurinn.
Í Pennsylvaníu, rétt eins og var í Wisconsin og Michigan-ríkjum sem bæði féllu Biden í skaut í gærkvöldi, endar talningin á því að póstatkvæði eru talin. Póstatkvæðin eru eins og búist var við að yfirgnæfandi meirihluta frá demókrötum. Ef fram heldur sem horfir mun Biden hafa betur, en hann þarf um tvo þriðju allra atkvæða sem enn eru ótalin í ríkinu til að svo verði.
Teymi forsetans hefur þegar farið fram á að öll atkvæði í Wisconsin verði talin aftur, en þar hafði Biden betur með um 20.000 atkvæða mun. Forsetinn mun líklega fara fram á endurtalningu í fleiri ríkjum, ef mjótt verður á munum.
Joe Biden kom fram á blaðamannafundi í gær og lýsti því yfir að hann væri þess fullviss að fá allavega 270 kjörmenn. Hann gekk samt ekki alla leið og lýsti yfir sigri, en ljóst er að honum dugar að hafa betur í Pennsylvaníu eða Arizona og Nevada, til þess að landa sigri.