Flóki Halldórsson, sem setið hefur í stjórn Íslandsbanka frá því í mars á þessu ári, hefur sagt sig úr stjórninni. Uppsögnin hefur þegar tekið gildi. Ástæða hennar er sú að Flóki hefur verið ráðinn í nýtt sarf forstöðumanns skrifstofu skilavalds Seðlabanka Íslands.
Tilkynning var um ráðningu Flóka í starfið hjá Seðlabankanum í síðustu viku, nánar tiltekið 28. október.
Skilavald er nýtt stjórnvald innan Seðlabankans. Hlutverk þess er að undibúa og framkvæma skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Alls sóttu 16 um starfið þegar það var auglýst í september, og Flóki var síðan formlega ráðinn í síðustu viku.
Hann hefur lokið BA-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og Executive MBA-prófi frá Copenhagen Business School, auk þess að vera með próf í verðbréfaviðskiptum.