Reykjavíkurborg ætlar sér að veita Leikfélagi Reykjavíkur allt að 78 milljóna króna stuðning, til þess að koma til móts við hluta af því tapi sem Borgarleikhúsið hefur orðið fyrir vegna COVID-19 og aðgerðir leikhússins og ríkisins ná ekki yfir.
Þá ætlar borgin sömuleiðis að veita Tjarnarbíói 5 milljón króna styrk til þess að mæta afleiðingum faraldursins. Báðar þessar tillögur voru samþykktar á fundi borgarráðs á fimmtudaginn og bíða samþykktar borgarstjórnar.
Í bókun borgarráðsfulltrúa meirihlutaflokkanna fjögurra í borginni segir að Borgarleikhúsið sé ein mikilvægasta menningarstofnun landsins og að tekjur þess hafi hrunið í heimsfaraldrinum.
Styrkur borgarinnar til leikhúsanna gæti orðið lægri en þessar samtals 83 milljónir sem talað er um í tillögunum, en í tilfelli Borgarleikhússins mun borgin veita 50 milljónum til leikfélagsins í desember 2020 og svo stendur til að greiða út 28 milljónir til viðbótar þegar uppgjör í febrúar 2021 liggur fyrir.
„Á tímabilinu mun leikfélagið veita borginni reglulega upplýsingar um uppgjör og stöðu mála. Verði niðurstaða rekstrar betri en ráðgert er, lækkar framlag í samræmi við það,“ segir í bókun fulltrúa meirihlutans um málið. Svipað eru uppi á teningnum í tilfelli Tjarnarbíós, sem mun fá tveggja milljóna króna styrk á þessu ári, en að þrjár milljónir skiptist svo niður á fyrstu sex mánuði næsta árs.
„Á tímabilinu mun félagið veita borginni mánaðarlega upplýsingar um uppgjör og stöðu mála. Verði samkomutakmarkanir rýmkaðar og tekjur meiri en ráðgert er lækkar framlagið í takt við það,“ segir í tillögunni.
Hafa orðið af meira en helmingi tekna
Bannað er að stunda sviðslistir á Íslandi um þessar mundir og tekjur leikhúsanna markast af því. Núna fyrir mánaðamót voru sagðar fréttir af því að Borgarleikhúsið hefði sagt upp átta starfsmönnum þvert á deildir.
Í tölvupósti sem Borgarleikhúsið sendi öllum starfsmönnum vegna uppsagnanna kom fram að reynt hefði verið eftir fremsta megni að vernda störf og standa vörð um rekstur leikhússins, sem hefði þó orðið af um 60 prósent tekna sinna, sem væri stór biti.