Einungis 23,6 prósent landsmanna á aldrinum 18-29 ára telja sig trúaða. Einu aldurshóparnir þar sem meirihlutinn telur sig trúaðan eru þeir sem eru yfir 50 ára. Flestir telja sig trúaða í aldurshópnum 60 ára og eldri, eða 60,3 prósent.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar sem Maskína gerði fyrir Siðmennt í byrjun árs og Kjarninn hefur fengið aðgang að. Niðurstöður um bakgrunn svarenda hafa ekki verið birtar áður en Kjarninn greindi frá hluta heildarniðurstaðna í október.
Í niðurstöðunum kemur einnig fram að menntun skiptir miklu máli í afstöðu svarenda til þess hvort þeir telji sig trúaða eða ekki. Þeir sem eru með grunnskólapróf sem æðstu menntun eru líklegastir til að telja sig trúaða, en 53,1 prósent þeirra svöruðu þeirri spurningu játandi. Það er eini menntahópurinn þar sem meirihluti landsmanna töldu sig trúaða. Fæstir töldu sig trúaða í hópnum sem var með framhaldsgráðu úr háskóla, t.d. meistaragráðu. Þar sögðust einungis 29,1 prósent telja sig trúaða.
Stjórnmálaskoðanir skipta líka miklu máli þegar kemur að trú. Fæstir kjósendur Pírata (19,6 prósent), Viðreisnar (23,6 prósent) og Samfylkingar (31,2 prósent) töldu sig trúaða. Fleiri kjósendur Vinstri grænna töldu sig trúaða en ekki (44,9 prósent á móti 30,6 prósent, restin var óákveðin) en afgerandi meirihluti kjósenda Flokks fólksins (72,5 prósent), Framsóknarflokksins (59,6 prósent), Sjálfstæðisflokksins (58,7 prósent) og Miðflokksins (48,4 prósent) töldu sig trúaða.
Fólk á barneignaraldri á móti kristinboði í skólum
Í könnun Maskínu voru þátttakendur einnig spurðir hvort þeir væru sammála eða ósammála því að kristilegar trúarathafnir, bænir eða guðsorð ættu að vera liður í starfi opinberra leikskóla eða grunnskóla. Alls sögðust 41,6 prósent aðspurðra að þeir væru ósammála, tæplega 23 prósent sögðust ekki hafa sterka skoðun á því og 35,7 prósent sögðust vera sammála erindi kristilegra trúarathafna, bæna og guðsorða í leikskólum eða grunnskólum.
Þar er mjög merkjanlegur munur á afstöðu fólks eftir aldri. Einungis 16,5 prósent landsmanna á aldrinum 18 til 29 ára er á þeirri skoðun að kristnin eigi erindi í skóla og afgerandi meirihluti annarra aldurshópa sem er líklegastur til að eiga börn í skólum er fremur á móti slíku en með. Eini aldurshópurinn þar sem kristniboð í skólum nýtur meirihluta stuðnings er á 60 ára og eldri, hópnum sem að uppistöðu er búinn að koma upp sínum börnum. Þar segjast 55,9 prósent styðja að kristilegar trúarathafnir, bænir eða guðsorð séu liður í starfi opinberra leikskóla eða grunnskóla.
Afstaðan litast líka af menntun og þróunin er þar sú sama og gagnvart trú. Þeir sem eru með grunnskólamenntun sem æðstu menntun eru líklegastir til að vera sammála kristinboði í skólum (50,8 prósent) en þeir sem eru með framhaldsmenntun á háskólastigi ólíklegastir (24,9 prósent).
Sama mynstur er líka til staðar þegar kemur að stjórnmálaskoðunum. Kjósendur frjálslyndu stjórnarandstöðuflokkanna eru mest á móti, Vinstri grænir kjósendur halla sér frekar að þeim og þar er meiri andstaða en stuðningur en meirihluti kjósenda íhaldssamari flokkanna fjögurra eru frekar fylgjandi kristinboði í skólum en á móti.