Afgerandi meirihluti yngri hluta þjóðarinnar er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Alls segjast 68,9 prósent landsmanna í aldurshópnum 18-29 ára vera á þeirri skoðun en einungis 10,6 prósent innan hans eru andvíg aðskilnaði. Stuðningur við aðskilnað er líka mjög mikill á meðal landsmanna á fertugsaldri, þar sem 64,2 prósent eru fylgjandi en 15,6 prósent andvíg. Stuðningurinn lækkar svo lítillega á meðal landsmanna á fimmtugs og sextugsaldri en er samt meiri en andstaðan í öllum mældum aldurshópum. Mest er andstaðan hjá landsmönnum yfir sextugu þar sem 40 prósent eru fylgjandi aðskilnaði en 30,6 prósent eru andvíg.
Þetta eru niðurstöður í könnun sem Maskína gerði fyrir Siðmennt í byrjun árs og Kjarninn hefur fengið aðgang að. Niðurstöður um bakgrunn svarenda hafa ekki verið birtar áður en Kjarninn greindi frá hluta heildarniðurstaðna í október. Þar kom meðal annars fram að þegar allt er talið saman eru rúmlega 54 prósent fremur eða mjög hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju og 25,7 prósent þeirra segjast vera í meðallagi hlynnt honum. Rúmlega 20 prósent segjast vera fremur eða mjög andvíg aðskilnaði.
Menntun er líka mjög afgerandi breyta þegar kemur að afstöðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Þeir sem eru með grunnskólapróf sem æðstu menntun eru líklegastir til að vera minnst á móti því að aðskilnaður verði framkvæmdur, þótt mun fleiri innan þess hóps eru hlynntir því að af honum verði en á móti. Stuðningur við aðskilnað eykst eftir því sem menntun er meiri og er þar af leiðandi mestur hjá landsmönnum sem lokið hafa framhaldsnámi á háskólastigi. Innan þess hóps eru 69,5 prósent hlynnt aðskilnaði, 16,1 prósent í meðallagi hlynnt en einungis 14,3 prósent eru andvíg.
Þegar horft er á stjórnmálaskoðanir kemur í ljós að stuðningsmenn Pírata eru að uppistöðu mjög eða fremur fylgjandi aðskilnaði (87,1 prósent fylgjandi og 8,5 prósent í meðallagi fylgjandi). Þeir sem kjósa Viðreisn (78,7 prósent fylgjandi og 10,7 prósent í meðallagi fylgjandi) og Samfylkinguna (76,5 prósent og 15,6 prósent í meðallagi fylgjandi) eru ekki langt undan.
Rúmur meirihluti kjósenda Vinstri grænna (53,5 prósent) eru mjög eða fremur fylgjandi aðskilnaði og 26,8 prósent þeirra eru í meðallagi fylgjandi. Hjá Sjálfstæðisflokki eru 29,8 prósent fylgismanna andvígir aðskilnaði, 45,3 prósent fylgjandi og 24,8 prósent í meðallagi fylgjandi.
Andstaðan við aðskilnað ríkis og kirkju mælist mest í Miðflokknum (48,8 prósent andvíg, 19 prósent fylgjandi og 32,2 prósent í meðallagi fylgjandi), Framsóknarflokkum (43,2 prósent andvíg, 23,1 prósent fylgjandi og 33,7 prósent í meðallagi fylgjandi) og Flokki fólksins (36,1 prósent andvíg, 29,6 prósent fylgjandi og 34,3 prósent í meðallagi fylgjandi).
Örlítið hluti yngsta hópsins telur sig eiga samleið
Einungis 6,4 prósent landsmanna í aldurshópnum 18 til 29 ára telur sig eina mikla samleið með þjóðkirkjunni. Hjá fólki á fertugsaldri er það hlutfall 15,8 prósent og hjá landsmönnum á fimmtugsaldri 29,1 prósent. Þegar horft er á fólk á aldrinum 50 til 59 ára er hlutfall þeirra sem telja sig eiga mikla samleið með þjóðkirkjunni 37,1 prósent og hjá Íslendingum eldri en sextugt er það 45,8 prósent.
Heildarsvör í þessum lið könnunarinnar voru þannig að 25,7 prósent aðspurðra sögðust eiga fremur mikla eða mjög mikla samleið með þjóðkirkjunni, 25,7 prósent sögðust eiga nokkra en 48,7 prósent sögðust eiga litla eða enga samleið.
Þeir sem voru með grunnskólapróf sem æðstu menntun voru líklegastir til að eiga mikla samleið með þjóðkirkjunni en þeir sem voru með framhaldsmenntun á háskólastigi ólíklegastir.
Kjósendur Pírata, Viðreisnar og Samfylkingar eiga minnsta samleið með þjóðkirkjunni en kjósendur Flokks fólksins, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eiga mesta samleið með henni. Kjósendur Vinstri grænna eru líklegri til að eiga litla eða enga samleið með kirkjunni en mikla þó hlutfall þeirra sem telur sig eiga samleið með henni sé töluvert hærra en hjá frjálslyndu stjórnarandstöðuflokkunum.
Íbúar á Suðurlandi og Reykjanesi og íbúar á Norðurlandi eru mun líklegri til að telja sig eiga samleið með þjóðkirkjunni en íbúar á öðrum svæðum landsins. Tekjur og kyn virðast ekki skipta teljandi máli þegar Íslendingar taka afstöðu til trúar sinnar. Það gerir heimilisgerð ekki heldur.