Alls hafa 17 fyrirtæki sótt um svokallaða greiðsluskjól á grundvelli laga sem Alþingi samþykkti 16. júní síðastliðinn. Frá þessu er greint í skýrslu stjórnvalda um nýtingu úrræða þeirra vegna yfirstandandi heimsfaraldurs, sem gerð var opinber fyrir helgi.
Í greiðsluskjólsúrræðinu, sem ætlað er fyrir fyrirtæki í neyð vegna COVID-faraldursins, felst að kröfuhafar þeirra geta ekki fengið greitt frá þeim né er hægt að setja þau í þrot líkt og vanalegt er þegar fyrirtæki geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Hægt er að fá heimild til að vera í slíku skjóli í allt að ár. Á einföldu máli þá þurfa fyrirtækin ekki að greiða reikninga sína og reyna þess í stað að bíða af sér storminn. Eins og við er að búast eru, samkvæmt heimildum Kjarnans, flest fyrirtæki sem lagt hafa umsóknir um greiðsluskjól fyrir héraðsdómstóla, tengd ferðaþjónustu.
Tilnefna eigin aðstoðarmann
Fyrirtæki í greiðsluskjóli fá tækifæri til að semja við kröfuhafa með fulltingi sérstaks aðstoðarmanns, lögmanns eða löggilts endurskoðanda sem fyrirtækið tilnefnir sjálft sér til aðstoðar. Beiðni um heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar er síðan beint til héraðsdóms. Alls hafa 17 slíkar beiðnir verið lagðar fyrir dómstóla síðastliðna mánuði.
Samtök atvinnulífsins hafa boðið aðildarfyrirtækjum sínum aðstoð lögmanns án endurgjalds til að glöggva sig á úrræðinu.
Harðlega gagnrýnt
Viðskiptablaðið fjallaði um ýmis álitaefni sem komu fram í umsögnum um frumvarp um greiðsluskjólaleiðina nokkrum dögum áður en það varð að lögum.
Blaðið greindi meðal annars frá því að umsagnaraðilar teldu margir hverjir að hluti frumvarpsins gæti verið í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Fyrirséð væri að reyna myndi á lögin fyrir dómstólum.
Í umfjöllun blaðsins var meðal annars farið yfir umsögn lögmannsstofunnar Advel. Í henni var vakin sérstök athygli á því að fjárhagsleg endurskipulagning ætti ekki að standa til boða hvaða skuldara sem er, aðeins fyrirtækjum sem eru raunverulega rekstrarhæf. Engin ástæða væri til að tefja gjaldþrotaskipti á ólífvænlegum atvinnufyrirtækjum ef skuldarinn hefði frjálsar hendur til þess að nýta sér aðgengi að málsmeðferð til fjárhagslegrar endurskipulagningar „getur það gert það að verkum að þegar hefðbundin gjaldþrotaskipti loks hefjast, þá kunna verðmæti þrotabúsins að hafa rýrnað verulega.“