Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, komst nær því en nokkur annar demókrati í langan tíma að hafa betur en helsti mótframbjóðandi sinn í Texas. Biden hafði betur en Donald Trump í mörgum sýslum þéttbýlli staða, fékk m.a. yfirgnæfandi meirihluta í þeim sýslum þar sem borgirnar Dallas, Austin og Houston er að finna. En það dugði ekki til og á heildina litið fékk Trump um sex prósent fleiri atkvæði í Texas. Það sem tryggði Trump sigurinn var stuðningur fólks með fram Rio Grande-ánni sem myndar að hluta landamærin að Mexíkó.
Í sýslunum við Rio Grande er meirihluti íbúanna af rómönsku bergi brotinn. Og sigur Trumps í þessum sýslum, sem hingað til hafa verið vígi demókrata, helgast af því að íbúarnir telja sig hafa verið afskipta árum saman og ekki njóta sömu grunninnviða og aðrir íbúar Texas. Þó að Trump hafi beitt hörku við að halda öðrum innflytjendum frá landinu voru innflytjendur og afkomendur þeirra á þessum slóðum tilbúnir í breytingar í von um bjartari tíma og fleiri tækifæri.
Mörgum hættir til að setja alla innflytjendur undir sama hatt. Mörgum hættir einnig til að setja alla innflytjendur frá Rómönsku-Ameríku undir sama hatt. En þetta er ekki einsleitur hópur, langt í frá.
Í ítarlegri samantekt Washington Post um niðurstöður forsetakosninganna í Texas-ríki er t.d. rætt við ungt fólk sem fluttist til Bandaríkjanna frá nágrannaríkinu Mexíkó. Annað þeirra, 32 ára karlmaður, hafði misst vinnuna í olíuiðnaðinum. Eftir að Trump varð forseti fékk hann vinnu í þessum geira á ný. Þetta þakkar hann Trump og gaf honum því atkvæði sitt í kosningunum.
Hitt þeirra er ung kona sem hefur nýlokið háskólanámi. Hún setti heilbrigðismál og baráttuna gegn kórónuveirunni efst á blað þegar hún gerði upp hug sinn. Og Biden fékk hennar atkvæði.
Fólk frá Mexíkó og fólk með ættir að rekja þangað eru stærsti hópur innflytjenda frá Rómönsku-Ameríku í Texas. Bæði repúblikanar og demókratar hafa reynt að höfða til þeirra í kosningum í gegnum tíðina en gert þau mistök að líta á þau sem einsleitan hóp fólks. En innan hans á fólk oft ekkert annað sameiginlegt en upprunann. Félagsleg staða þeirra er misjöfn og menntun þeirra sömuleiðis. Sumir eru frekar nýkomnir til Bandaríkjanna. Aðrir hafa fæðst þar og alist upp.
„Þau eru íhaldsmenn, frjálslynd, blanda af þessu tvennu eða áhugalaus um stjórnmál,“ útskýrir Trinidad Gonzales, prófessor í mexíkóskum fræðum við háskólann í Suður-Texas. „Hluti af óréttinu sem minnihlutahópar í Bandaríkjunum eru beittir er sú staðreynd að fólki sem þeim tilheyra er ekki tekið sem einstaklingum.“
Evrópskir Bandaríkjamenn
Fólk af rómönskum uppruna eru um 30 prósent allra kjósenda í Texas og um 40 prósent allra íbúa ríkisins. Íbúasamsetningin hefur verið að breytast síðustu ár og sífellt fleiri með ættir að rekja til Rómönsku-Ameríku og Afríku setjast þar að.
„Ef þú vilt fá atkvæði þessa fólks þá þarftu að vinna fyrir því,“ hefur Washington Post eftir Michelle Tremillo, framkvæmdastjóra samtakanna Texas Organizing Project sem vinna að því að valdefla verkafólk í ríkinu. Að veifa einhverju einu kosningaloforði framan í svarta og rómanska íbúa Texas skilar engu.
Að auki er flokkun eftir uppruna og litarhætti eitthvað sem margir íbúar Texas eru mótfallnir. Með því eru þeir ekki að afneita uppruna sínum heldur einfaldlega að benda á að þeir hafi búið þar kynslóð fram af kynslóð, rétt eins og hvítir Texasbúar sem ættaðir eru frá Evrópu.
Settu atvinnumál á oddinn
Stjórnmálafræðingur við Háskólann í San Antonio segir það ekkert nýtt að stuðningur við repúblikana sé mikill á dreifbýlli svæðum í Texas. En í þessum kosningum hafi repúblikanar unnið heimavinnuna sína og sniðið kosningabaráttu sína um atvinnumál og aðra hagræna þætti.
Julián Castro, fyrrverandi borgarstjóri í San Antonio og fyrrverandi forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, segir það vekja spurningar fyrir flokk sinn að íbúar í mörgum sýslum við landamærin að Mexíkó hafi kosið Trump. Hann segir samfélögin þar of mikilvæg fyrir demókrata til að láta eins og ekkert sé. „Það er mjög mikilvægt að við gefum okkur tíma til að skilja hvað gerðist með fram landamærunum.“
Aðrir segja að sveiflan í þessum sýslum hafi verið fyrirséð. Biden hafi ekki gefið sig að málefnum íbúanna. Sömu skilaboðin voru sögð vítt og breitt um hið víðfeðma ríki. „Hér er fullt af fólki sem finnst það hafa verið afskipt. Það heldur áfram að kjósa demókrata en ekkert breytist,“ segir Jessica Cisneros, ungur mannréttindalögfræðingur. „Fyrir kórónuveirufaraldurinn voru 30 prósent íbúa á þessu svæði undir fátæktarmörkum og um fjórðungur þeirra hefur ekki sjúkratryggingu. Ég skil vel að fólk sé opið fyrir að kjósa repúblikana.“