Stefán Skjaldarson, sendiherra í utanríkisráðuneytinu, segir að Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hafi haft í frammi „tilhæfulausar dylgjur“ um að embættismenn sem gagnrýni frumvarp ráðherrans um breytingar á starfsmannamálum í utanríkisþjónustunni hafi hag af því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í harðorðri umsögn sendiherrans við frumvarpið. Þar segir Stefán að telja verði „í hæsta máta óeðlilegt og óviðeigandi að ráðherra freisti þess að sverta orðspor embættismanna í sínu eigin ráðuneyti og gera þeim upp pólitískar skoðanir.“
Sendiherrann segir að með þessu sé vegið að starfsheiðri og fagmennsku embættismanna, sem séu skyldugir til þess að fara að lögum og reglum, hafa almannahagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum og styðja við og framfylgja stefnu þeirra ríkisstjórna sem sitja hverju sinni. Ráðherra gefi í skyn að þeim sé ekki treystandi.
„Kannski kristallast í svona málflutningi og þessari lagasmíð mergurinn málsins, hugmyndin um að embættismenn séu pólitískt skipaðir og þar af leiðandi aðeins treystandi ef viðkomandi ráðherra hefur sjálfur valið þá til ábyrgðarstarfa,“ segir í umsögn sendiherrans, sem er heilt yfir gagnrýninn á frumvarp ráðherra, sem nú er lagt fram með breytingum sem utanríkismálanefnd Alþingis gerði á því á síðasta þingi.
Heimild til að skipa hvern sem er án auglýsingar
Ekki eru þó gerðar miklar breytingar á því sem einna helst hefur verið gerð athugasemd við í tengslum við frumvarpið, nefnilega heimild ráðherra á hverjum tíma til að skipa sendiherra án auglýsingar.
„Reynt er að láta líta út sem að gerðar verði menntunarkröfur eða reynslukröfur varðandi alþjóðamál og utanríkismál sem forsendu fyrir að geta talist hæfur til að verða skipaður tímabundið sendiherra án auglýsingar. Raunin er þó, samkvæmt frumvarpinu, að einnig má skipa aðila með „sértæka reynslu sem nýtist í embætti.“ Þetta þýðir á mannamáli að hægt er að skipa hvem sem er í slíkt embætti ef vilji er til,“ skrifar sendiherrann um þetta efni.
Stefán, sem hefur verið sendiherra Íslands í Ósló og Peking, segir að Alþingi sé þó auðvitað í sjálfsvald sett að skapa stjórnsýslunni það lagaumhverfi sem það vill innan marka stjórnarskrár.
Hann segir þó að ef svo sé komið fyrir íslenskri stjórnsýslu „að ráðherrar treysti ekki lengur sínum embættismönnum nema þeir hafi valið þá sjálfir og ef Alþingi vill taka undir slík sjónarmið og bregðast við með lagasetningu sem opnar á enn frekari pólitískar ráðningar“, sé það umhugsunarefni sem kalli á umfjöllun á breiðari vettvangi en í tengslum við þetta frumvarp eitt og sér.
Enginn hafi mælt með samþykkt frumvarpsins
Frumvarp Guðlaugs Þórs hefur verið umdeilt og Stefán er ekki einn um að hafa gert við það verulegar athugasemdir. Hann vekur athygli á því að engar þær umsagnir sem komu fram um efni upphaflegs frumvarps, og eigi að mestu við um núverandi frumvarp, hafi mælt með samþykkt frumvarpsins.
„Áður hefur komið fram að það setji embættismenn í erfiða stöðu að gefa umsögn um frumvarp síns ráðherra, sérstaklega umsagnir sem sá vafa um ágæti málsins. Það er því hæpið að túlka það sem ánægju með frumvarpið að fáar umsagnir berist. Þvert á móti vekur athygli að enginn skuli mæla því bót þrátt fyrir mögulegan undirliggjandi freistnivanda um að slíkt gæti komið sér vel í starfi,“ skrifar Stefán.