Ekki er enn búið að undirrita samning við Alþjóðamatvælastofnunina (FAO) um þá úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem íslensk stjórnvöld boðuðu að þau myndu hafa frumkvæði að í nóvember í fyrra, en vonir standa til að samningur verði undirritaður um miðjan nóvember.
Nú er eitt ár liðið frá því að málið sem varð til þess að ríkisstjórnin ákváð að kosta þessa úttekt kom upp á yfirborðið, með umfjöllunum Kveiks og Stundarinnar um starfsemi Samherja í Namibíu.
Skömmu eftir að málið setti íslenskt samfélag hálfpartinn á hliðina settist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir niður og kom sér saman um aðgerðalista til þess að auka traust á íslensku atvinnulífi. Ein af þessum sjö aðgerðum var umrædd úttekt FAO. Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra átti að hafa frumkvæði að því að alþjóðastofnunin myndi vinna úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndum.
Á grundvelli úttektarinnar átti FAO svo að vinna „tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti,“ samkvæmt því sem sagði í aðgerðalista ríkisstjórnarinnar.
Kjarninn spurði atvinnuvegaráðuneytið út í stöðu málsins fyrir rúmum mánuði síðan og fékk þá þau svör að búið væri að móta verkefnið og ná samkomulagi við FAO um grundvallaratriði úttektarinnar og kostun Íslands á henni. Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar hefur einnig spurst fyrir um málið og í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn hennar, sem birt hefur verið á vef Alþingis, er farið yfir stöðu málsins í meiri smáatriðum.
Fjögurra áfanga verkefni og Ísland mun a.m.k. kosta þann fyrsta
Samkvæmt svari ráðherra mun verkefnið skiptast í fjóra áfanga. Ísland hefur ákveðið að fjármagna framkvæmd að minnsta kosti fyrsta áfangans, en annar áfangi úttektarinnar verður útfærður nánar þegar þeim fyrsta er lokið og svo koll af kolli.
Fyrsti áfanginn af þessum fjórum felst í kortlagningu á þeim fiskveiðisamningum sem um er að ræða. Ráðherra tekur sérstaklega fram í svari sínu að þetta verði ekki „upptalning á slíkum samningum heldur greining á því hvernig slíkir samningar eru,“ og á það við að farið verði yfir „hvað þeir eigi sameiginlegt og hvað sé ólíkt meðal þeirra, með svæðisbundinni áherslu sem taki tillit til mismunandi aðstæðna og skoði hver séu helstu efnisatriði slíkra samninga.“
„FAO telur að ekki sé til úttekt á þessu og því sé það mikilvæg forsenda fyrir frekara starfi í þessu sambandi að skýra viðfangsefnið frekar með því að skoða mismunandi gerðir og eðli samninga og mismunandi stöðu milli hinna ýmsu svæða heimsins hvað það varðar. Úttekt samkvæmt fyrsta áfanga ætti því að vera til mikilla bóta, ekki bara vegna næstu áfanga í þessu samstarfsverkefni Íslands og FAO heldur ætti það að nýtast öðrum sem vinna að málum tengdum samskiptum þróunarríkja við erlendar útgerðir,“ segir í svari ráðherra.
Þar kemur einnig fram að vegna COVID-19 faraldursins hafi vinna við frágang formsatriða um úttektina tafist og að ráðuneytið hafi reynt að sýna því skilning, en jafnframt eftir fremsta megni reynt að þrýsta á hraða afgreiðslu málsins.
Talið að FAO hefði bestu sérfræðiþekkinguna
Hanna Katrín spurði ráðherra af hverju ákvörðun hefði verið tekin um að leita til FAO um gerð úttektarinnar frekar en UNODC, fíkniefna- og glæpaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, sem hefur á undanförnum árum barist gegn spillingu innan fiskveiðigeirans á heimsvísu.
Í svari ráðherra segir að FAO sé „vissulega ekki eina alþjóðastofnunin sem sinnir starfi tengdu þessum málefnum,“ en að varðandi þetta verkefni hefði niðurstaðan orðið sú að FAO væri sú stofnun sem hefði bestu sérfræðiþekkingun og jafnframt væri stefnt að því að nýta niðurstöður FAO í vinnu á vettvangi annarra alþjóðastofnana.
Ráðherra vísar til yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar frá 19. nóvember í fyrra þar sem segir að FAO sé stærsta alþjóðlega stofnunin sem sinni reglubundnu starfi hvað varðar aðgerðir til að bæta stjórn fiskveiða og þróun sjávarútvegs á heimsvísu. Á vettvangi stofnunarinnar hafi verið gerðir alþjóðasamningar m.a. til að takast á við ólöglegar veiðar og bæta stjórn og upplýsingagjöf með fiskveiðum. Verkefnið falli því vel að hlutverki stofnunarinnar.
Ísland gerðist aðili að yfirlýsingu um skipulagða glæpastarfsemi í fiskiðnaði í nóvember í fyrra
Hanna Katrín spurði ráðherra einnig út í svokallaða „Kaupmannahafnaryfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 2018 um skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi í fiskiðnaði“. Þingmaðurinn spurði hvort Ísland hefði verið aðili að henni frá upphafi og ef ekki, þá hvers vegna. Einnig spurði Hanna Katrín hvort Ísland hefði síðar gerst aðili að yfirlýsingunni og þá hvenær og hvers vegna.
Í svari ráðherra er tekið fram að hvorki allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna né undirstofnanir þess hafi gefið út sérstaka yfirlýsingu um hvernig verjast skuli alþjóðlegri glæpastarfsemi í fiskiðnaði. Kaupmannahafnaryfirlýsingin svokallaða sé óbindandi yfirlýsing ráðherra. En þar segir einnig að Ísland hafi ekki verið aðili að henni frá upphafi, heldur gerst aðili 27. nóvember 2019.
„Þar sem ráðherra var ekki á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn undirritaði hann ekki yfirlýsinguna,“ segir í svari ráðherra. Níu ráðherrar tóku þátt í undirritun þessarar yfirlýsingar í upphafi og er tekið fram í svarinu að ráðherrar frá Kyrrahafseyjum hafi komið til Íslands í framhaldinu af fundinum í Kaupmannahöfn, tekið þátt í ráðstefnunni Arctic Circle og snætt kvöldverð með ráðherra.
„Yfirlýsingin er mjög áþekk samstarfsyfirlýsingu norrænu sjávarútvegsráðherranna frá 2017. Hún byggist, m.a. hvað fiskveiðar snertir, á sömu hugsun og finna má í samningi FAO um hafnríkisaðgerðir, sem Ísland hefur með ýmsum hætti stutt, þar sem horft er til þess að við fiskveiðistjórnun verði upprættur efnahagslegur ábati af ólögmætum fiskveiðum. Í framhaldi af ráðstefnunni hafa nokkur ríki lýst yfir stuðningi við yfirlýsinguna. Meðal þeirra er Ísland sem lýsti formlega yfir stuðningi við hana og gerðist því aðili að henni með ráðherrabréfi til vörsluaðila, dags. 27. nóvember 2019,“ segir í svari ráðherra.