Stór hluti peningamagnsins sem bæst hefur við í fjármálakerfinu ratar mestmegnis í hækkandi eignarverð á fasteignamarkaði, sem hefur ekkert með nauðsynlegan stuðning að gera á núverandi krísutímum, samkvæmt Kristrúnu Frostadóttur, aðalhagfræðingi Kviku banka. Að mati hennar væri eðlilegra fyrir hið opinbera að hlúa að mannauði, framleiðslugetu og atvinnustigi hagkerfisins heldur en að örva hagkerfið með skuldsetningu í einkageiranum.
Í nýjasta tölublaði Vísbendingar skrifar Kristrún um aukningu peninga í umferð í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans á síðustu mánuðum, en samkvæmt henni hafa nær 300 milljarðar króna bæst við peningamagnið á þessum tíma. Nánast öllu þessu fjármagni hefur verið miðlað í gegnum bankakerfið, sem hefur aukið útlán sín töluvert.
Meirihluti þessarar aukningar hefur runnið til heimila, á meðan einungis átta prósent þeirra hafa farið til fyrirtækja. Samhliða því hafa skuldir heimilanna aukist um fjögur prósent á árinu árinu.
„Því sem ekki hefur verið velt upp í þessu samhengi er hvort við ættum að nýta rúmlega 100 ma. kr. af nýjum peningum til að veita út á húsnæðismarkaðinn til fólks sem samkvæmt Fjármálastöðugleikahefti Seðlabankans stendur betur en meðalmaðurinn í lánasafni bankanna,“ skrifar Kristrún í greininni.
Munur á örvun og stuðningi
Samkvæmt Kristrúnu er mikilvægt að gera greinarmun á örvunaraðgerðum hjá hinu opinbera og stuðningi. Þar sem núverandi krísa sé ekki hefðbundin hagsveifla heldur afleiðing þess að fyrirtæki í ýmsum geirum hafi orðið fyrir tímabundnu tekjufalli sé hagkerfið ekki móttækilegt fyrir örvun núna. Mikilvægara sé að koma í veg fyrir rýrnun mannauðs og að efnahagsreikningar holist að innan út af tekjustoppi í núverandi ástandi.
Aukning húsnæðisskulda hefur hins vegar fyrst og fremst leitt til hækkandi eignaverðs á húsnæðismarkaði. „Þetta hefur ekkert með nauðsynlegan stuðning að gera á núverandi krísutímum,“ segir Kristrún. „Þetta er helber örvun.“
Hætta á að stuðningur fari ekki til þeirra sem þurfa hann
Kristrún bætir einnig við að þó að neysla aukist vegna hærra eignaverðs sé líklegt að fjármagnið sem bætt hefur verið við hagkerfið skili sér ekki til þeirra sem þurfa á því að halda. Þeir sem orðið hafa fyrir tekjufalli í núverandi kreppu séu þeir sem reka starfsemi sem felur ekki í sér snertingu, þar sem fólk óttast að smitast af veirunni. Ekki er víst hvort örvunin muni skila sér í auknum viðskiptum til þeirra.
Hægt er að lesa grein Kristrúnar í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.