Seðlabankinn hefur keypt ríkisskuldabréf fyrir einn og hálfan milljarð króna á síðustu fimm vikum, en þar af keypti hann fyrir tæpar 500 milljónir króna í gær. Þetta er virkasta tímabil Seðlabankans á skuldabréfamarkaði frá því að hann hóf magnbundna íhlutun í apríl síðastliðnum.
Magnbundin íhlutun
Þann 23. mars tilkynnti peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands fyrst að bankinn hygðist hefja kaup á ríkisskuldabréfum. Þessi aðgerð kallast magnbundin íhlutun (e. quantitative easing) og hefur hún verið notuð af seðlabönkum víða um heiminn til að örva fjárfestingar og lántöku með því að færa langtímavexti niður.
Mánuði seinna kom nánari útlistun á fyrirhuguðum kaupum bankans, en þá var tilkynnt að heildarfjárhæð hennar gæti numið allt að 150 milljörðum króna. Af þessum 150 milljörðum tilkynnti bankinn að hann gæti keypt fyrir allt að 60 milljörðum króna á þessu ári, eða fyrir allt að 20 milljörðum á hverjum ársfjórðungi í mesta lagi.
Hins vegar hefur lítið orðið af þeim kaupum hingað til. Á milli apríl- og júnímánaðar keypti Seðlabankinn ríkisskuldabréf fyrir einungis tæplega 900 milljónir króna og á þriðja ársfjórðungi keypti hann ekkert. Samkvæmt efnahagsreikningi Seðlabankans virðist hann svo hafa selt ríkisskuldabréf í síðasta mánuði, þar sem ríkisskuldabréfaeign hans minnkaði um 40 milljónir króna.
Í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans við síðustu vaxtaákvörðun í byrjun október skrifar hún að ekki hafi verið ástæða til umfangsmikillar íhlutunar þar sem framboð á ríkisbréfum hefði enn ekki aukist til muna og verðmyndun og virkni markaða hefði verið eðlileg. Nefndarmenn væru sammála um að ekki væri tilefni til kröftugri viðbragða að þessu sinni.
Langtímavextir hafa hækkað
Á sama tíma og Seðlabankinn hefur haldið aftur að sér í ríkisskuldabréfakaupum hefur svo krafan á ríkisskuldabréfum til langs tíma hækkað nokkuð, en slíka þróun á magnbundin íhlutun að koma í veg fyrir.
Í greiningu Íslandsbanka á stöðunni, sem birt var í síðustu viku, kemur fram að ávöxtunarkrafa langra verðtryggðra ríkisskuldabréfa sé nú tæpu prósentustigi hærra en í lok ágústmánaðar. Samkvæmt Íslandsbanka á þessi þróun engan sinn líka meðal annarra þróaðra ríkja, þar sem stjórnvöld hafi víðast hvar reynt að halda vöxtum niðri í kórónukreppunni.
Þessar vaxtahækkanir hafa haft áhrif á langtímahorfur, ef marka má ársfjórðungslega könnun Seðlabankans á væntingum markaða. Í síðustu könnun, sem birt var á miðvikudaginn í síðustu viku, vænta markaðsaðilar þess að langtímavextir verði 0,7 prósent á næstu tíu árum. Þetta er ekki langt frá væntingum þeirra á fyrsta ársfjórðungi, þar sem þeir töldu vextina munu verða 0,9 prósent. Með öðrum orðum hefur magnbundin íhlutun Seðlabankans haft tiltölulega lítil áhrif á væntingar á skuldabréfamarkaði.
Í greiningu sinni bætir Íslandsbanki við að hærri langtímavextir séu farnir að endurspeglast í versnandi lánskjörum heimila og fyrirtækja, en hann hækkaði sjálfur vexti á húsnæðislánum sínum í lok síðasta mánaðar vegna þess.
Í umfjöllun Fréttablaðsins um málið síðasta fimmtudag var haft eftir Agnari Tómasi Möller, sjóðsstjóra skuldabréfa hjá Kviku banka, að líkur væru á að allir fastir vextir á íbúðalánum bankana myndi hækka á næstunni, að öllu óbreyttu, vegna þessarar þróunar.
Kaupin aukast
Samkvæmt Fréttablaðinu var talið að Seðlabankinn hefði ákveðið að vera í biðstöðu eftir að þangað til þrýstingur á markaði vegna sölu evrópska skuldabréfastýringarfyrirtækisins BlueBay Asset Management á íslenskum ríkisskuldabréfum minnkaði. BlueBay seldi öll útistandandi ríkisskuldabréf sín fyrir meira en 20 milljarða króna síðustu vikuna í október.
Í kjölfarið hafa svo kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum aukist nokkuð, þótt þau sé enn langt undir yfirlýstu 20 milljarða króna hámarki á þessum fjórðungi. Frá 9. október hefur bankinn keypt fyrir rúma 1,5 milljarða í ríkisskuldabréfum með gjalddaga árið 2028 og 2031 (RIKB28 og RIKB31), en tæpur þriðjungur af þeirri upphæð var keyptur í gær, samkvæmt viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Því hafa kaupin á ríkisskuldabréfin verið meiri á síðustu fimm vikum heldur en þau voru í á fyrstu fimm mánuðum magnbundinnar íhlutunar.