Stjórnendur þriggja íslenskra hlaðvarpsþátta hafa að undanförnu fengið bréf frá fjölmiðlanefnd, stjórnsýslunefnd sem hefur eftirlit með löggjöf um fjölmiðla, þar sem óskað er eftir því að hlaðvörpin skrái sig formlega sem fjölmiðla.
Til skoðunar er að senda slíkar beiðnir á fleiri hlaðvarpsstjórnendur, samkvæmt svari fjölmiðlanefndar við fyrirspurn Kjarnans, en nefndin hefur að undanförnu verið að skoða íslenska hlaðvarpsmarkaðinn.
Ekki öll hlaðvörp fjölmiðlar, bara sum
Hlaðvörp eru tiltölulega nýtt form miðlunar og vaxandi þáttur af fjölmiðlaneyslu margra. Margir hefðbundnir fjölmiðlar eru með sínar hlaðvarpsrásir og miðla efni þar, eins og Kjarninn hefur gert árum saman. En einnig hafa sjálfstæðir hlaðvarpsþættir um hin ýmsu efni sprottið fram og náð eyrum margra. Það eru slíkir þættir sem fjölmiðlanefnd er nú að beina sjónum sínum að.
Ekkert sjálfstætt hlaðvarp er í dag skráð sem fjölmiðill, samkvæmt athugun blaðamanns á yfirliti yfir skráða fjölmiðla á vef fjölmiðlanefndar.
Samkvæmt svörum frá nefndinni falla hlaðvörp hins vegar undir lög um fjölmiðla, „svo lengi sem þau uppfylla skilyrði laganna um að teljast fjölmiðlar.“
Fjölmiðill er, samkvæmt lögum um fjölmiðla frá árinu 2011, „hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljast m.a. dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar.“
„Það er því ekki þannig að öll hlaðvörp myndu teljast fjölmiðlar í skilningi laga um fjölmiðla en fjölmiðlanefnd metur hvert tilvik fyrir sig. Þegar lögin voru sett var ekki hægt að sjá fyrir þá þróun sem orðið hefur á hlaðvarpsmarkaðnum með tilkomu nýrrar tækni og miðlunarleiða. Hlaðvörp voru áður fyrr mun minni í sniðum og meira í líkingu við bloggsíður. Á síðustu árum hafa hlaðvörp hins vegar notið sífellt meiri vinsælda og stækkað í takt við það. Mörg þeirra hafa nú fjölda kostenda eða auglýsinga og þúsundir hlustana á hvern þátt,“ segir í skriflegu svari Antons Emils Ingimarssonar, lögfræðings fjölmiðlanefndar, við fyrirspurn blaðamanns sem beint var til nefndarinnar.
Ábendingar um ólöglegar auglýsingar virðast kveikjan
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa að minnsta kosti tvö þeirra þriggja hlaðvarpa sem fjölmiðlanefnd vill að skrái sig sem fjölmiðla við sama tækifæri fengið meldingu frá nefndinni vegna ólögmætra viðskiptaboða í þáttunum.
Þar er átt við auglýsingar frá veðmálavefsíðunni Coolbet, sem hefur auglýst töluvert mikið í íslenskum hlaðvarpsþáttum sem fjalla um fótbolta og aðrar íþróttir, en hefur ekki leyfi til þess að reka sína starfsemi hér á landi.
Fjölmiðlanefnd hefur óskað eftir upplýsingum og sjónarmiðum frá hlaðvörpunum vegna ætlaðra brota þeirra gegn fjölmiðlalögum.
Fjallað er um veðmálaauglýsingar í lögum um fjölmiðla og það er á grunni ábendinga um ætluð brot hlaðvarpanna gegn þeim lagaákvæðum sem fjölmiðlanefnd er að hafa samband. Síðan eru hlaðvörpin beðin um að skrá sig sem fjölmiðla í leiðinni.
Þess má geta að ekki er eingöngu bannað samkvæmt fjölmiðlalögum að auglýsa veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi hér á landi, heldur er það einnig bannað samkvæmt lögum um happdrætti og geta fésektir eða allt að sex mánaða fangelsisrefsing legið við slíkum brotum.
En hvenær verður hlaðvarp fjölmiðill?
Eins og áður segir er það mat fjölmiðlanefndar að sum hlaðvörp séu fjölmiðlar, en önnur ekki. Blaðamaður spurði hvaða viðmiða væri horft til þegar nefndin væri að leggja mat á þetta.
„Við mat á því hvort hlaðvarp teljist fjölmiðill er m.a. horft til skilgreininga laga um fjölmiðla ásamt lögskýringargögnum og til 2. gr. starfsreglna fjölmiðlanefndar nr. 1363. Reglurnar eru hins vegar frá 27. desember 2011 og líkt og á við um lögin sjálf var ekki hægt að sjá fyrir þá þróun sem orðið hefur á hlaðvarpsmarkaðnum með tilkomu nýrrar tækni og miðlunarleiða. Fjölmiðlanefnd horfir því einnig til annarra þátta við á mat því hvort hlaðvarp teljist fjölmiðill í skilningi laganna,“ segir í svari fjölmiðlanefndar.
Í starfsreglunum segir meðal annars að það sé „skýr vísbending“ um að miðlun efni falli undir hugtakið fjölmiðill þegar fjölmiðlaveita hafi af því atvinnu að miðla fjölmiðlaefni.
Vistun utan Íslands ekki úrslitaatriði
Blaðamaður spurði einnig hvort það breytti einhverju um það hvort hlaðvörp gætu talist íslenskir fjölmiðlar ef öll hýsing þeirra væri utan landsteinanna, en hlaðvörpum er flestum einungis dreift inn á erlendar streymiveitur
„Það að hlaðvarp sé vistað að öllu leyti utan Íslands er ekki úrslitaatriði um hvort það geti talist fjölmiðill samkvæmt lögum um fjölmiðla eða ekki,“ segir í svari fjölmiðlanefndar um það atriði.
Þar segir einnig að nefndin þurfi „að skoða og meta hvert tilvik fyrir sig,“ og að á meðal þeirra þátta sem litið sé til við skilgreiningu á því hvort fjölmiðill telst miðla efni handa almenningi hér á landi í skilningi fjölmiðlalaga er það hvort ritstjórnarefni og viðskiptaboðum sé miðlað á íslensku.
Í svarinu er síðan vísað til dóms héraðsdóms Reykjavíkur frá árinu 2018, í máli 365 miðla gegn fjölmiðlanefnd, sem snerist um tímaritið Glamour.
Þar komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Glamour heyrði undir lögsögu íslenska ríkisins, þrátt fyrir að útgáfufélag þess væri skráð til heimilis í Bretlandi, meðal annars á grundvelli þess að ritstjórnarefni og auglýsingar í tímaritinu væru á íslensku og efni fjölmiðilsins því beint að íslenskum almenningi.
365 miðlar höfðu borið því við að útgáfufélag tímaritsins væri skráð í Bretlandi og því utan lögsögu íslenska ríkisins.