Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og fjármála- og efnahagsráðherra, segir að hann hafi metnað til að mynda ríkisstjórn eftir næstu kosningar og leiða hana. Besta tryggingin til þess sé að skila góðum árangri í lok kjörtímabilsins og uppskera svo hjá kjósendum í kjölfarið.
Þetta sagði Bjarni þar sem hann svaraði spurningum í beinu vefstreymi á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins í hádeginu í dag. Bjarni var spurður hvort hann vildi verða forsætisráðherra aftur, en hann sat sem slíkur um nokkurra mánaða skeið árið 2017 þegar Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með Bjartri framtíð og Viðreisn.
Bjarni sagði að það sem væri nýtt í stjórnmálaumhverfinu í dag væri að það væri erfitt að mynda tveggja flokka stjórn. Nú væru til að mynda átta flokkar á þingi og það geri stjórnarmyndun flóknari en lengi var.
Hann sagði að núverandi ríkisstjórnarsamstarf, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn situr í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum, gangi ágætlega. Það væri tekist á um stór mál sem flokkarnir legðu hver um sig áherslu á en að það væri hluti af því að vera í samstarfi. Bjarni sagði að hann hefði síðast í gær átt óformlegt samtal við Katrínu, formann Vinstri grænna, og Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, um hvað væri hægt að gera til að halda jafnvægi í stjórnarsamstarfinu. Slík samtöl hefðu reynst vel. „Við erum ekki alltaf sammála en við höfum fundið leiðir til að útkljá mál og höfum verið nokkuð farsæl sem ríkisstjórn vegna þess.“
Hún var mynduð við erfiðar pólitískar aðstæður þar sem stjórnarkreppa hafði ríkt mánuðum saman og búið var að reyna að ýmiskonar samsetningu á ríkisstjórn áður en það náðist saman milli Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisn snemma árs 2017. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var svo kynnt til leiks 10. janúar 2017.
Ríkisstjórnin varð fljótt óvinsæl og í maí 2017 studdu einungis 31,4 prósent landsmanna hana. Hún sprakk svo 15. september það ár í kjölfar uppreist-æru málsins svokallaða og boðað var til nýrra kosninga, ári eftir að kosið hafði verið síðast.
Sjálfstæðisflokkurinn fór best stjórnarflokkanna þriggja úr þeim, þótt fylgið hefði dalað og þingmönnum hans fækkað úr 21 í 16. Björt framtíð hvarf af þingi og Viðreisn tapaði þremur þingmönnum af sjö.
Sjálfstæðisflokkurinn myndaði svo ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum. Sú ríkisstjórn stefnir í að verða önnur ríkisstjórnin af síðustu fimm sem myndaðar hafa verið til að sitja út heilt kjörtímabil.