Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa ekki átt nein samskipti við namibíska ráðamenn á því rúma ári sem liðið er frá því að ljóstrað var upp um vafasama viðskiptahætti Samherjasamstæðunnar í Namibíu. Engir fundir eða samtöl hafa átt sér stað á milli hérlendra ráðherra og namibískra stjórnmálamanna síðan þá, samkvæmt svörum ráðuneyta við fyrirspurnum Kjarnans.
Tilefni fyrirspurnanna var fréttaflutningur í norskum og namibískum fjölmiðlum um nýlegt símtal á milli Ernu Solberg forsætisráðherra Noregs og Hage Geingob, forseta Namibíu, sem fram fór 22. október.
Á meðal umræðuefna þar voru meðal annars yfirstandandi rannsóknir á Samherjamálinu, en Geingob Namibíuforseti þakkaði Solberg fyrir veitta samvinnu norskra löggæsluyfirvalda við rannsókn á málinu á namibískri grundu.
Noregur tengist inn í málið þar sem norski bankinn DNB var viðskiptabanki Samherja þar til í lok síðasta árs. Í gegnum bankann fór hluti af þeim mútugreiðslum sem sjö menn í Namibíu, þeirra á meðal tveir fyrrverandi ráðherrar, hafa setið í gæsluvarðhaldi fyrir að þiggja frá því skömmu eftir að málið kom upp.
Forseti Namibíu sagði Solberg í samtali þeirra að búið væri að vinna að úrbótum í namibískum sjávarútvegi og fullyrti að búið væri að sníða af vankanta sem hefðu verið misnotaðir í fortíðinni, samkvæmt lýsingu á símtalinu sem birt var á Facebook-síðu namibíska forsetaembættisins.
Þess má reyndar geta að sjálfstæð rannsóknarstofnun í Namibíu gaf á dögunum út skýrslu um stöðu namibískrar stjórnsýslu með tilliti til spillingarvarna og komst þar að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert búið að gera sem kæmi í veg fyrir að svipuð spillingarmál og „Fishrot“-skandallinn, eins og Samherjamálið er jafnan kallað á ensku, kæmu upp í landinu. Enn væri leyndarhula yfir störfum sjávarútvegsráðuneytisins, þvert á það sem boðað hefði verið.
Solberg sagði Noreg beita sér gegn spillingu á alþjóðavettvangi
Norski fjölmiðillinn Dagens Næringsliv fjallaði um símtalið á milli leiðtoganna fyrr í þessum mánuði og óskaði eftir svörum frá norska forsætisráðuneytinu um það hverju Erna Solberg hefði komið á framfæri í símtali við Geingob. Blaðafulltrúi ráðuneytisins svaraði því til að Solberg hefði sagt namibíska forsetanum að aðgerðir gegn spillingu væru í forgrunni í málefnavinnu Noregs á alþjóðasviðinu, meðal annars í sjávarútvegi.
Blaðið spurði hvort sérstaklega hefði verið rætt um DNB en því vildi forsætisráðuneytið ekki svara. „Við höfum engu við að bæta umfram okkar fyrsta svar, við teljum að það nái vel yfir samtalið sem forsætisráðherrann átti við forseta Namibíu,“ hefur DN eftir fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins.
Ísland og Noregur einu ríkin sem hafi reynst samvinnufús
Embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra rannsaka nú Samherjamálið hér á landi og hafa verið í samskiptum við namibísk yfirvöld í tengslum við rannsóknina.
Í nýlegri frétt í namibíska blaðinu New Era er haft eftir aðalrannsakanda namibísku spillingarlögreglunnar ACC að einungis íslensk og norsk yfirvöld hefðu verið samvinnufús í rannsókninni, en fjöldi annarra annarra landa, þar á meðal grannríkið Angóla, hefðu neitað beiðnum um liðsinni.